Breytingar hjá Akraneskaupstað

Nýtt stjórnskipulag Akraneskaupstaðar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 15. desember og tók gildi þann 1. janúar.

Markmið breytinganna er að auka og bæta innri og ytri þjónustu Akraneskaupstaðar, auka skilvirkni í rekstri sveitarfélagsins með upplýsingatækni, skýrari verkferlum, stjórnun og öflugu starfsumhverfi, að því er segir í tilkynningu.

Meðal helstu breytinga voru þær stofnuð var ný eining sem ber heitir skrifstofa bæjarstjóra. Undir hana tilheyra ýmsir málaflokkar.

Ráðið í fjögur störf

Samhliða breytingunum hefur verið gengið frá ráðningu í fjögur störf hjá Akraneskaupstað. Breytingarnar fela ekki í sér fjölgun starfsmanna þar sem þær fela í sér tilfærslu á verkefnum.

Ný staða skrifstofustjóra varð til samhliða nýrri skrifstofu og tók Sædís Alexía Sigurmundsdóttir við stöðunni en áður gegndi hún starfi deildarstjóra á stjórnsýslu- og fjármálasviði..

Innan nýrrar einingar verður starfrækt verkefnastofa og hefur verið ráðinn inn verkefnastjóri til þess að leiða og skipuleggja þverfaglegt teymisstarf innan sveitarfélagsins. Ella María Gunnarsdóttir sem gegndi áður starfi forstöðumanns menningar- og safnamála hefur tekið við þeirri stöðu.

Þá var Harpa Hallsdóttir ráðin mannauðsstjóri en enginn slíkur hefur starfað hjá kaupstaðnum frá árinu 2012, auk þess sem Kristjana Helga Ólafsdóttir hefur tekið við nýrri stöðu deildarstjóra fjármála.

Vilja ná fram aukinni skilvirkni

„Við förum jákvæð inn í nýtt ár og með tilhlökkun um að takast á við krefjandi og ný verkefni mörg hver. Með þessum breytingum er það okkar einlægja von að ná fram aukinni skilvirkni bæði í skipulagi og rekstri þannig að við náum að veita sem bestu mögulegu þjónustu til okkar nærsamfélags. Ég vil nota tækifærið og óska þessum fjórum öflugu konum til hamingju með nýtt starf. Það verður spennandi að starfa með þeim að eflingu á starfsemi Akraneskaupstaðar sem ég er sannfærður um að muni skila sér í enn öflugri þjónustu við íbúa og starfsmenn,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert