Eru „ekki að taka neina stóra sénsa“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki sé mikil áhætta tekin með því að geyma ekki helming bóluefnaskammta fyrir seinni sprautu sem fólk þarf að fá til þess að öðlast vernd gegn Covid-19. Bóluefnaskammtar berist nú jafnt og þétt og allt að 42 dagar megi líða á milli bóluefnaskammta frá Pfizer og 28 dagar á milli skammta frá Moderna.

Útlit er fyrir að þeir sem fá Pfizer bóluefnið fái seinni bólusetningu 19-42 dögum eftir fyrstu bólusetninguna.

Einungis tvö smit greindust innanlands í gær. Þórólfur segist ánægður með það en samt sé ekki tímabært að slaka á aðgerðum innanlands.

„Ég held að það sé enginn í alvöru að tala um það, ekki ég alla vega,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá í gær verður fólk framvegis bólu­sett með öll­um þeim skömmt­um sem ber­ast og því ekk­ert geymt fyr­ir seinni bólu­setn­ing­una. Þetta er vegna þess að viðbúið er að bólu­efna­skammt­ar ber­ist vikulega til landsins og því hægt að nota nýju skammtana í seinni bólusetninguna. 

Þyrfti eitthvað mikið að gerast í framleiðslunni svo allt hryndi

Er þetta ekkert hættulegt, til dæmis ef framleiðslubrestur verður?

 „Auðvitað getur það komið upp en ég bendi þá líka á að aðrar þjóðir eins og Bretar eru að lengja tímann á milli skammtanna. Ég held að við séum ekki að taka mikla áhættu með því í sjálfu sér. Síðan eru fjórar vikur á milli skammta Moderna og við fáum bóluefni í annarri hvorri viku svo ég held að við séum ekki að taka neina stóra sénsa, það þyrfti eitthvað mikið að gerast í framleiðslunni ef það hryndi allt saman,“ segir Þórólfur.

Þegar fyrstu 10.000 skammt­ar bólu­efn­is við Covid-19 komu hingað til lands voru ein­ung­is 5.000 þeirra notaðir og 5.000 geymd­ir fyr­ir seinni bólu­setn­ingu hóps­ins sem hlaut fyrstu bólu­setn­ing­una.

„Við vorum ekkert að tala um alla framtíð. Við vorum bara að tala um þessa 10.000 skammta sem komu fyrst. Þá voru upplýsingarnar þannig að það þyrfti að gefa skammt númer tvö eftir þrjár vikur og vikmörkin á því væru 19-23 dagar þannig að við vildum ekki lenda í vandræðum. Í framhaldi af því bárust upplýsingar um að [tíminn sem líði á milli bólusetninga] gæti verið upp í 42 daga,“ segir Þórólfur.

Erfitt að segja til um áhrif á Ísland

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Pfizer breytt afhendingaráætlun sinni til Evrópu. Þórólfur segir að lönd muni líklega fá eitthvað færri skammta frá fyrirtækinu en þau gerðu ráð fyrir.

„Við erum ekki búin að fá neina nýja afhendingaráætlun frá Pfizer þannig að það er erfitt að segja hvernig þetta kemur til með að hafa áhrif á okkur,“ segir Þórólfur.

Eins og staðan er í dag berast bóluefnasendingar frá Pfizer vikulega en frá Moderna á tveggja vikna fresti. Engin sending berst frá Moderna í þessari viku en hún kemur í þeirri næstu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert