„Hvað eigum við að eiga marga banka?“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í dag að umræða gærdagsins um tilvonandi sölu á hluta Íslandsbanka, hafa komið sér á óvart því að í raun trúði hún því að flestir væru þingmenn sammála um að það væri ekki hlutverk ríkisins að eiga banka.

Þetta kom fram í ræðu Bryndísar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.

Erlent eignarhald gott eða vont?

Bryndís velti því upp hversu marga og hversu stóran hlut þingheimur teldi að ríkið ætti að eiga og þá hvernig atvinnurekstur sé eðlilegt að ríkið stundi.

„Eigum við að eiga flugfélag? Margir lögðu það til hér, ekki alls fyrir löngu, að ríkið kæmi inn og ætti hlut í Icelandair. Eigum við að eiga sementsverksmiðjur eða malbikunarverksmiðjur? Reykjavíkurborg hefur ákveðið að það sé mjög skynsamlegt að eiga malbikunarverksmiðju. Við getum líka farið að velta fyrir okkur matvælaframleiðslufyrirtækjum, því að það hefur jú með þjóðaröryggi okkar að gera. Kannski ætti ríkið að kaupa fiskeldisfyrirtæki,“ sagði Bryndís.

Bryndís bætti því við að óvinsælt væri að Norðmenn ættu fiskeldisfyrirtæki en þegar að bankarekstri kæmi þykir mikilvægt að fá að borðinu erlenda aðila. 

„Er ekki rétt að við hættum að reyna að ákveða hverjir eigi og reki fyrirtæki sem eiga augljóslega að vera í höndum einkaaðila og einbeitum okkur að því að setja regluverk utan um slíka starfsemi?“ sagði Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert