Sérstakt andrúmsloft fyrir embættistökuna

Frá einni eftirlitsstöðva þar sem fylgst er með umferð inn …
Frá einni eftirlitsstöðva þar sem fylgst er með umferð inn í miðju Washingtonborgar. AFP

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, segir sérstakt andrúmsloft ríkja í Washingtonborg um þessar mundir. Tvær vikur eru frá því æstur múgur stuðningsmanna Bandaríkjaforseta réðst inn í þinghúsið og á morgun tekur demókratinn Joe Biden við forsetaembættinu.

Hún ræddi við mbl.is um atburðina undanfarnar vikur og embættistökuna á morgun, sem hún verður viðstödd.

Bendir hún á að þeim hluta borgarinnar sem hýsir flestar helstu stofnanirnar, á borð við Hvíta húsið og þinghúsið, hafi verið nær algjörlega lokað í aðdraganda embættistökunnar. Þar standi vörð fjöldi hermanna sem kallaðir hafa verið út á undanförnum vikum.

„Þá var líka tekin sú ákvörðun, sem er mjög sérstök auðvitað, að loka öllu þessu stóra græna svæði sem kallast National Mall,“ segir Bergdís. Þar standa minnismerkin um Washington og Lincoln, meðal annars.

„Þetta er mjög stórt grænt svæði sem er mikið útivistarsvæði. Því hefur algjörlega verið lokað fyrir almenningi og verður ekki opnað aftur fyrr en á fimmtudag, það er að segja daginn eftir embættistökuna,“ segir hún.

Donald Trump og Bergdís við afhendingu trúnaðarbréfs sendiherra árið 2019.
Donald Trump og Bergdís við afhendingu trúnaðarbréfs sendiherra árið 2019. Ljósmynd/Sendiskrifstofa Íslands í Washington

Árásin gjörbreytti öryggismálunum

„Þetta er líka það svæði þar sem almennt séð fólk hefur safnast saman til að taka þátt í hátíðarhöldum við embættistökur,“ bendir hún á.

Hins vegar hafi verið alveg ljóst, jafnvel fyrir árásina, að athöfnin yrði öðruvísi en áður vegna farsóttarinnar sem enn geisar.

„Fólk má ekki safnast saman í hópum og svo framvegis, þannig það hefði aldrei verið með sama sniði og vanalega. En þessi árás á þinghúsið 6. janúar gjörbreytti auðvitað öllum öryggismálunum í kringum þetta allt saman.“

Að minnsta kosti tuttugu þúsund hermenn, gráir fyrir járnum, eru komnir inn í borgina auk lögregluliðs úr öllum nærliggjandi ríkjum og borgum.

„Það er búið að setja upp alls kyns varnargirðingar og gaddavír. Á sumum stöðum, þar sem fólk má ekki koma inn nema að eiga þangað erindi, er búið að koma upp svokölluðum „checkpoints“ eða eftirlitsstöðvum,“ segir Bergdís.

Embættistakan fer fram á tröppum þinghússins á morgun, venju samkvæmt.
Embættistakan fer fram á tröppum þinghússins á morgun, venju samkvæmt. AFP

Þungvopnaðir hermenn alltaf skrýtin sjón

Washingtonborg er ekki ýkja stór miðað við aðrar stórborgir vestanhafs. Íbúar telja um sjö hundruð þúsund.

„Flest það fólk sem vinnur inni í Washington býr í Virginíu eða í Maryland eða einhvers staðar fyrir utan. Þetta hefur þvi kannski ekki mjög mikil áhrif á daglegt líf flestra borgara, myndi ég segja.“

Það sé þó alltaf skrýtin sjón að sjá þungvopnaða hermenn á ferð inni í borgum.

„Ég man síðast eftir þessu eftir hryðjuverkin í Brussel, en þá voru einmitt hermenn og herbílar úti um alla borg. Það er auðvitað mjög sérstakt, það er bara stríðsástand inni í borg.“

Bergdís segist aðspurð ekki hafa verið í grennd við þinghúsið þegar múgurinn réðst þangað inn 6. janúar.

„Við höfum auðvitað mikil samskipti við þingmenn en vegna faraldursins eru ekki fundir utanaðkomandi í þinghúsinu nema í undantekningartilfellum. Þannig að við höfum ekki verið að fara í þinghúsið eins og við gerðum fyrir daga kórónuveirunnar.“

Hermenn þjóðvarðliðsins standa vörð fyrir utan þinghúsið.
Hermenn þjóðvarðliðsins standa vörð fyrir utan þinghúsið. AFP

Brúm lokað og aðgengi erfitt

Borgarstjórinn Muriel Bowser sendi nýverið út þau tilmæli að fólk sækti ekki vinnustaði sína í borginni á morgun, á degi embættistökunnar.

„Því húsnæði sem við störfum í hefur verið lokað í dag og verður lokað fram á fimmtudagsmorgun,“ segir Bergdís. „Það er ekki síst vegna þess að það er erfitt fyrir fyrir fólk að koma, það er búið að loka brúm inn í borgina og allt aðgengi að vinnustöðum er erfitt.“

Bergdísi hefur sem sendiherra verið boðið að vera viðstödd innsetningarathöfnina á morgun, eins og áður sagði.

„Ég fór einmitt í skimun í gær, sem var áskilin til þess að geta tekið þátt í athöfninni,“ segir hún.

„En þetta verður miklu fámennara og minna í sniðum en áður, og verður örugglega mjög langur dagur vegna öryggismála. Það verður örugglega mikið um bið hér og þar.“

Auð stræti í höfuðborginni. Washington-minnismerkið sést til vinstri.
Auð stræti í höfuðborginni. Washington-minnismerkið sést til vinstri. AFP

Sjúklingar í stað dansleikjagesta

Ekki stendur til að hafa dansleik um kvöldið eins og hefð er fyrir, en til að mynda sóttu Barack Obama og eiginkona hans Michelle Obama tíu dansleiki að kvöldi dags eftir embættistöku hans árið 2009.

Helsti dansleikurinn hefur eftir síðustu embættistökur farið fram í ráðstefnuhöll í Washingtonborg. En sú höll hefur nú verið tekin undir neyðarrými fyrir þá sem þungt eru haldnir af kórónuveirusýkingu, þegar getu sjúkrahúsa þrýtur.

Tímanna tákn, nefnir blaðamaður.

„Já, það er tímanna tákn,“ svarar Bergdís. „En það stóð ekki til að það yrði dansleikur þar sem í gildi eru reglur um að ekki megi fleiri en tíu manns koma saman innanhúss. Það verður þess vegna ekki af honum og heldur verður ekki þessi sama dagskrá sem verið hefur, þar sem tugir eða hundruð þúsunda safnast saman í kringum athöfnina og á National Mall. Því verða ekki þessar dýrðir sem fólk hefur vanist.“

Öryggisgæsla hefur verið hert til muna í borginni í kjölfar …
Öryggisgæsla hefur verið hert til muna í borginni í kjölfar árásarinnar 6. janúar. AFP

Strangar reglur um samskipti verðandi forseta

Bergdís tók við embætti sendiherra í Bandaríkjunum árið 2019 en áður gegndi embættinu Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Afhenti hún Trump forseta trúnaðarbréf sitt í september það ár. Spurð hvort hún hafi haft einhver kynni af forsetanum við afhendinguna segir að hún að svo hafi varla verið.

„Þá voru tólf sendiherrar að afhenda bréf og þetta voru bara stutt samtöl. Sums staðar er sest niður á fund þar sem farið er yfir öll mál en hérna er minna samtal sem á sér stað.“

Af verðandi forseta og varaforseta hefur hún ekki haft kynni.

„Það gilda mjög strangar reglur, um til að mynda allt það teymi sem vinnur að embættistöku Bidens, málefnavinnu og vali á fulltrúum hans í hin ýmsu embætti. Því fólki, sem og Biden og Harris, er óheimilt að tala við fulltrúa erlendra ríkja.“

Eins og frægt varð.

„Já, eins og frægt varð. Þau hafa verið mjög varkár og ekki gefið neinn kost á neinum samtölum eða neitt slíkt. Þannig að við bíðum bara spennt og rjúkum svo af stað þegar embættistökunni er lokið,“ segir Bergdís létt í bragði.

Bergdís var áður fasta­full­trúi Íslands hjá Sam­einuðu þjóðunum.
Bergdís var áður fasta­full­trúi Íslands hjá Sam­einuðu þjóðunum. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Öryggisgæsla hert nærri sendiráðsbústaðnum

Sendiherrabústaður Íslands í Washingtonborg er í Kalorama-hverfinu, sem þekkt er fyrir að hýsa ýmsa háttsetta embættismenn og annað valdamikið fólk í landinu. Þannig búa Obama-hjónin í kallfæri við bústaðinn og við sömu götu býr Ivanka Trump, dóttir Bandaríkjaforseta, ásamt fjölskyldu sinni.

Spurð hvort hún hafi orðið vör við aukinn viðbúnað í götunni að undanförnu kveður Bergdís já við og bendir á að sýnilega hafi öryggisgæsla verið hert síðustu daga.

„Það eru fleiri bílar frá öryggislögreglunni, Secret Service, og ég hef séð að það eru greinilega fleiri þarna á ferðinni í kring en vanalega.“

mbl.is