Vilja breytt skipulag í samræmi við Evrópureglur

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigendur Óttarsstaða krafið Hafnarfjarðarbæ um að breyta skipulagi svæðisins í kringum álverið í Straumsvík í samræmi við nýjar Evrópureglur. Þær heimila ekki lengur að stóriðnaði sé heimilt að þynna mengun á jörðum utan verksmiðjunnar.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður eigenda Óttarsstaða, greinir frá því í samtali við Fréttablaðið að starfsleyfi álversins hafi verið framlengt um eitt ár og að eigendur Óttarsstaða telji það ekki standast í lögum að tilviljunarkennd atriði ráði starfsleyfi álversins. Hann hefur mótmælt þessari ákvörðun, sem er núna á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála.

Rætt hefur verið um að svæðið verði skilgreint sem varúðarsvæði en ekki þynningarsvæði. Eigendurnir muni því áfram ekki mega nýta landið eins og þeir vilja. Því hefur einnig verið mótmælt af Ragnari.  „Umhverfisstofnun, verksmiðjan og Hafnarfjarðarbær sitja á fundum og ræða framtíðarráðstöfun á landi Óttarsstaða, að mínu viti án heimildar, og virðast telja að hægt sé að komast undan niðurfellingu þynningarsvæða með því að breyta um nafn,“ segir Ragnar við Fréttablaðið. Ekkert samráð hafi verið haft við eigendurna.

Ragnar segir eigendurna vera tilbúnar til að selja eða leigja út umræddan hluta jarðarinnar en það hafi ekki verið tekið í mál. Ekki heldur að greiða skaðabætur.

mbl.is