Búið að rýma á Siglufirði

Búið er að rýma þau hús sem þurfti vegna snjóflóðahættu …
Búið er að rýma þau hús sem þurfti vegna snjóflóðahættu á Siglufirði. mbl.is/Sigurður Ægisson

Búið er að rýma þau níu hús sem þurfti vegna snjóflóðahættu á Siglufirði. Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra, segir í samtali við mbl.is að um rúmlega tuttugu íbúar hafi þurft að yfirgefa hús sín vegna rýmingar og hættustigs sem tók gildi kl. 16 í dag. 

Öll gátu þau fengið inni hjá vinum eða ættingjum á Siglufirði en ófært er á vegum til og frá Siglufirði. Bæði Ólafsfjarðarmúli og Siglufjarðarvegur eru lokaðir. Aðgerðastjórn er stýrt frá Akureyri en lögregluþjónar sinna störfum á svæðinu að sögn Kristjáns.

Ekki hefur þurft að grípa til lokana á vegum inni í bænum en vegir í hesthúsahverfi sunnan við Siglufjörð eru lokaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert