„Hálfgerð pattstaða“ á Siglufirði

Snjóflóð féll á skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði í morgun.
Snjóflóð féll á skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði í morgun. Ljósmynd/Sigurður Þór Helgason

„Það er hálfgerð pattstaða akkúrat núna,“ segir lögregluþjónninn Hermann Karlsson í samtali við mbl.is. Hann situr í aðgerðastjórn al­manna­varna á Norður­landi eystra sem virkjuð var í dag eftir að rýma þurfti hús á Siglufirði vegna snjóflóðahættu.

Níu hús voru rýmd núna síðdegis og þurftu rúmlega tuttugu íbúar að leita annað. Allir gátu þeir farið til vina eða ættingja í bænum. 

„Við sjáum núna hvernig nóttin verður og tökum stöðuna aftur í fyrramálið,“ segir Hermann.

Leiðindaveður hefur verið á Tröllaskaga síðustu daga en ófært er til og frá Siglufirði. Þá er vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaður en þar hafa fallið snjóflóð.

Veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi úrkomu á svæðinu þótt spáin sé ef til vill skárst á morgun. „Um helgina er talsverð úrkoma í kortunum en við tökum bara einn dag í einu í þessu,“ segir Hermann.

Hann segir að öll samskipti við íbúa hafi verið mjög góð og þeir hafi allir tekið vel í það að yfirgefa heimili sín vegna snjóflóðahættunnar. 

Hermann vill enn fremur taka fram að þrátt fyrir vegalokanir undanfarna daga skortir Siglfirðinga ekki helstu nauðsynjar. Björgunarsveitarmenn tóku á móti póstinum þannig að lyfjum hefur verið komið í apótek bæjarins.

mbl.is