Hlakkar til að þiggja bóluefnið

Sara Elísa Þórðardóttir á Alþingi í dag.
Sara Elísa Þórðardóttir á Alþingi í dag. Skjáskot/Alþingi

Til að taka allan vafa af um afstöðu mína til bólusetningar þá vil ég taka það fram að ég er meðfylgjandi bólusetningu. Og ég hlakka til þess að þiggja minn skammt af bóluefni gegn Covid-19 og hvet sem flesta til að gera það líka,“ sagði Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi. Hún sagðist hins vegar mótfallin því að skylda fólk í bólusetningu.

Hún sagði að það mætti ekki þvinga heilbrigt fólk með valdi til þess að taka við lyfi og læknismeðferð.

Í fyrsta lagi yrði slíkt fyrirkomulag skýrt brot á mannhelgi einstaklings – brot á stjórnarskrárvörðum rétti fólks til að hafna læknismeðferð. Þetta stæðist ekki stjórnarskrá og hugmyndin brýtur því að sjálfsögðu gegn grunngildum okkar Pírata. Það sama á við hvað varðar ákvæði um útgöngubann,“ sagði Sara.

Hins vegar sagði Sara að markmiðið með slíkri lagasetningu hlyti að vera að sem flestir yrðu bólusettir við veirunni. Þar sé farsælla að fræða en þvinga en að öðrum kosti sé hætta á andspyrnu sem vinni beinlínis gegn markmiðinu.

Það er mun heillavænlegra í alla staði að leita frekar upplýsts samþykkis borgaranna með fræðslu og opnu samtali þegar að viljinn stendur til að reyna að sannfæra mjög marga um að gera sama hlutinn í þágu almannaheilla.Það virkar best. Enda þættu mér það löt stjórnmál að reiða sig á harkalega lagasetningu í þeim yfirlýsta tilgangi að vilja stuðla heilbrigði heillar þjóðar.“

mbl.is