Ná auka skammti úr bóluefnaglösunum

Frá fyrsta bólusetningardeginum. Þá var framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu bólusett sem …
Frá fyrsta bólusetningardeginum. Þá var framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu bólusett sem og íbúar hjúkrunar- og dvalarheimila. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu mun ná um 400-500 fleiri skömmtum upp úr þeim bóluefnaglösum sem hún hefur nú til umráða með nýjum búnaði sem barst til landsins í vikunni. Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­u höfuðborgarsvæðisins, segir það fagnaðarefni og í raun „alveg frábært“.

Bólusetning hrumra eldri borgara sem eiga erfitt með að mæta á heilsugæslustöð, svo sem þeir sem njóta þjónustu dagdvala, dagþjálfunar og heimahjúkrunar fá bólusetningu með bóluefni Pfizer/BioNTech í dag. 

„Við ætlum að reyna að byrja á öllum sem eru eldri og hrumir og komast þar af leiðandi ekki til okkar. Næst fá þeir sem komast til okkar boð,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­u höfuðborgarsvæðisins,
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­u höfuðborgarsvæðisins, Ljósmynd/Lögreglan

Seinni sprautan gefin á morgun

Hver einstaklingur þarf tvær sprautur af bóluefninu með nokkurra vikna millibili til þess að öðlast vernd gegn Covid-19. Fyrstu bólusetningarnar hérlendis voru framkvæmdar á milli jóla og nýárs og er því kominn tími á fyrstu seinni bólusetninguna. Hún hefst hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á morgun. 

Ragnheiður segir viðbúið að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins nái að bólusetja flestalla eldri borgara sem eiga erfitt með að koma á heilsugæslu í vikunni. Með næsta bóluefnaskammti sem berst verði þá eldri borgarar sem geta mætt á heilsugæslu bólusettir. Bóluefnaskammtar berast hingað til lands vikulega frá Pfizer og á tveggja vikna fresti frá Moderna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert