Ófært víða á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vetrarfærð er í flestum landshlutum. Vegir eru víða ófærir á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi eftir nóttina en mokstur er hafinn víðast hvar. Greiðfært er að mestu með suðurströndinni samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Ófært er á Fróðárheiði og víða hálka eða snjóþekja á vegum vestanlands. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði en ófært á Þröskuldum, Dynjandisheiði og norður í Árneshrepp. Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á vegum á Vestfjörðum.

Ófært er á Siglufjarðarvegi sunnan Ketiláss og eins á Ólafsfjarðarvegi sunnan Dalvíkur og á Vatnsskarði. Á vegum norðanlands er víða hálka eða snjóþekja og skafrenningur eða éljagangur. Vegurinn um Þverárfjall er lokaður vegna veðurs. Umferð er beint um Vatnsskarð. Vegurinn um Almenninga er ófær en athugað verður með mokstur með morgninum. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi. Öxnadalsheiði er ófær. Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er lokaður vegna snjóflóðahættu. Athugað verður með aðstæður með morgninum.

Ófært er á Möðrudalsöræfum, Hófaskarði og Hólasandi en víða snjóþekja eða þæfingsfærð á Norðausturlandi í morgunsárið, skafrenningur og éljagangur. Þungfært er á Fjarðarheiði en unnið að mokstri. Víðast hvar hálka eða snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á vegum austanlands. Lokað yfir Öxi og Breiðdalsheiði.

mbl.is