Ræða þungatakmarkanir og lokanir vegna blæðinga

Til umræðu er að beita lokunum og þungatakmörkunum vegna blæðinga …
Til umræðu er að beita lokunum og þungatakmörkunum vegna blæðinga í klæðingu. Ljósmynd/mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Áætlaður kostnaður Vegagerðarinnar vegna blæðinga á klæðingu á þjóðveginum á fjölmörgum stöðum frá Borgarnesi að Öxnadalsheiði í desember sl. nemur 9 milljónum króna að lágmarki. Tilkynnt hefur verið um 108 tjón á bílum vegna þessa en Vegagerðin bætti bæði þrif og tjón á bílum. 

„Við vitum ekki enn hver endanleg upphæð verður. Tjón á flutningabílum getur orðið umfangsmeira en lítur út í fyrstu en þetta er stærðargráðan sem við erum að vinna út frá núna,“ segir G. Pétur.

Meðal hæstu tjónabóta

Hann segir óhætt að áætla að þetta sé meðal hæstu tjónabóta sem greiddar hafa verið vegna tiltekins atviks. Þannig voru heildartjónabætur Vegagerðarinnar á fimm ára tímabili árin 2016-2020 fram að blæðingunum í desember sl. um 20 milljónir króna í heild.

Fjöldi bíla tjónaðist vegna blæðingar á þjóðveginum.
Fjöldi bíla tjónaðist vegna blæðingar á þjóðveginum. Ljósmynd/Aðsend

G. Pétur segir að menn standi á gati varðandi það hvað hægt sé að gera til að takast á við blæðingar. Bendir hann á að sambærileg tilvik hafi komið upp í Svíþjóð og þar standi til að fara í rannsóknarvinnu við það að skýra hvers vegna þetta gerist.

„Uppi eru ýmsar kenningar og við teljum að þungaumferðin komi þessu af stað. Hún dregur bikið upp,“ segir G. Pétur.

Eins og upp úr nálarauga 

Hann segir að fyrir vikið hafi komið upp umræða um að setja upp þungatakmarkanir og um leið að er því velt upp að grípa til lokana á vegum. „Að sumri til er hægt að sanda til að draga úr blæðingum. En í þessu tilviki fer blæðingin upp líkt og úr nálarauga og það er erfitt að átta sig á upptökum hennar. Svo draga vörubílarnir sérstaklega þetta upp og kasta af sér annars staðar. Þá færðu harðan köggul sem er búin að draga í sig sand og annað,“ segir G. Pétur.

Til greina kemur að beita lokunum vegna blæðinga.
Til greina kemur að beita lokunum vegna blæðinga. Ljósmynd/mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Ekki hafa verið þungatakmarkanir á hringveginum hingað til. „Það kemur til skoðunar að beita þungatakmörkunum eða lokunum en það er ekki búið að taka ákvörðun í þessum efnum,“ segir G. Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert