Týr á leiðinni norður

Varðskipið Týr verður til taks fyrir norðan.
Varðskipið Týr verður til taks fyrir norðan. mbl.is/Árni Sæberg

Aðgerðarstjórn almannavarna á Akureyri var virkjuð í kjölfar þess að snjóflóð féll á Siglufirði á skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði í morgun. Ljóst er að snjóflóðið hefur valdið töluverðu tjóni, en svæðið var til allra lukku mannlaust.

Samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra hefur stöðugum samskiptum verið komið á við alla hlutaðeigandi aðila til að tryggja upplýsingaflæði. 

Óskað hefur verið eftir því að Landhelgisgæsla Íslands sendi varðskip á svæðið, og er Týr á leiðinni norður og verður til taks á meðan óvissa ríkir.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hvetur alla íbúa og aðra sem eru á þessu svæði að fylgjast vel með veðurspá, en talsverðri ofankomu er spáð fram yfir helgi.

Ófært um norðanverðan Tröllaskaga 

Enn er ófært til og frá Fjallabyggð en bæði Ólafs­fjarðar­múli og Siglu­fjarðar­veg­ur eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. 
Óvissu­stig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Trölla­skaga.
mbl.is