Umsóknum fækkaði um fjórðung

Húsnæði Útlendingastofnunar.
Húsnæði Útlendingastofnunar. mbl.is/Hari

Umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi fækkaði um fjórðung á nýliðnu ári. Hlutfallslega sækja fleiri um vernd hér en í öðrum norrænum ríkjum. 

Umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2020 voru 654 og voru mestu sveiflurnar á fjölda umsókna samfara útbreiðslu Covid-19 faraldursins og þeim viðbrögðum sem gripið var til á landamærum og höfðu mikil áhrif á flugframboð til landsins.

Sambærilegar aðgerðir á Norðurlöndunum leiddu til þess að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð fækkaði umsóknum um vernd um 40%. Í Finnlandi fækkaði umsóknum um 25% eins og á Íslandi.

Líkt og árið 2019 voru umsóknir um vernd hlutfallslega flestar á Íslandi, 18 á hverja 10.000 íbúa, í samanburði við hin Norðurlöndin. Hlutfallslega fæstar umsóknir voru lagðar fram í Danmörku og Noregi eða 3 á hverja 10.000 íbúa.

Margir með vernd í öðru landi – langflestir í Grikklandi

Umsækjendur um vernd á Íslandi voru af 52 ólíkum þjóðernum. Aðeins 6% umsókna kom frá ríkisborgurum ríkja á lista yfir örugg upprunaríki og hafa þær umsóknir ekki verið færri undanfarin ár.

Umsóknir frá einstaklingum sem þegar nutu verndar í öðru Evrópuríki voru helmingur allra umsókna og fjölgaði um rúman helming milli ára, úr 202 í 331. Langflestir þeirra höfðu fengið vernd á Grikklandi eða um þrír af hverjum fjórum. 

Framan af ári voru ríkisborgarar Venesúela fjölmennasti hópur umsækjenda en komum þeirra til landsins fækkaði mjög í kjölfar innleiðingar ferðatakmarkana í síðari hluta marsmánaðar. Þegar litið er á árið í heild voru stærstu hópar umsækjenda ríkisborgarar Palestínu, Írak og Venesúela að því er segir á vef Útlendingastofnunar. 

Útlendingastofnun

Endurteknar umsóknir voru 25, níu umsóknir komu frá börnum sem fæddust hér á landi á meðan mál foreldra þeirra voru til meðferðar og tólf umsækjendur fylgdarlaus ungmenni.

Útlendingastofnun tók 825 ákvarðanir vegna umsókna um alþjóðlega vernd sem vörðuðu 766 einstaklinga en í 56 málum var tekin fleiri en ein ákvörðun. 79 einstaklingar til viðbótar drógu umsókn sína um vernd til baka eða hurfu frá henni. 140 einstaklingum var synjað um efnislega meðferð umsóknar um vernd, 52 á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 88 á grundvelli þess að njóta þegar verndar í öðru Evrópuríki.

Vegna áhrifa Covid-19 faraldursins gerði Útlendingastofnun tímabundnar breytingar á mati sínu á því hvaða umsóknir skyldu fá efnislega meðferð og voru 62 ákvarðanir um synjun á efnislegri meðferð afturkallaðar í kjölfarið og málin til efnismeðferðar.

Aldrei fleiri veitingar í efnismeðferð

Útlendingastofnun afgreiddi 685 umsóknir í efnislegri meðferð, þar af fjórðung í forgangsmeðferð. Fleiri umsækjendur fengu jákvæða niðurstöðu en nokkuð annað ár á undan, samtals 528. Þar af fékk 121 einstaklingur alþjóðlega vernd, 338 viðbótarvernd og 69 dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Til samanburðar afgreiddi stofnunin 376 umsóknir með veitingu árið 2019 og höfðu þær þá aldrei verið fleiri.

Rúmur helmingur þeirra sem fengu jákvæða niðurstöðu kom frá Venesúela, Írak og Sýrlandi en samtals voru það einstaklingar af 32 þjóðernum.

Til viðbótar við þá 528 umsækjendur sem fengu jákvæða niðurstöðu hjá Útlendingastofnun á árinu, fengu 103 einstaklingar alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála eða vernd sem aðstandendur flóttamanna. Samtals fékk því 631 einstaklingur alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2020 til samanburðar við 531 einstakling 2019.

Útlendingastofnun

Meðalmálsmeðferðartími hjá Útlendingastofnun styttist milli áranna 2019 og 2020 í öllum tegundum málsmeðferðar nema forgangsmeðferð. Þegar litið er til allra afgreiddra mála styttist meðalafgreiðslutími umsókna úr 144 dögum í 130 daga. Mest styttist meðalafgreiðslutími í hefðbundinni efnismeðferð (um 57 daga) og í málsmeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar (um 24 daga).

Tæp 40% allra mála voru afgreidd á innan við þremur mánuðum og tæp 40% á þremur til sex mánuðum. Fimmtungur mála var afgreiddur á sex til tólf mánuðum og þrjú prósent mála tók lengri tíma en eitt ár að afgreiða.

Umsækjendum í þjónustu fækkaði um fjórðung

Umsækjendum í þjónustu í verndarkerfinu fækkaði um fjórðung á árinu 2020, úr 600 í 445. Líkt og árið á undan dvaldi meirihluti einstaklinga í þjónustu sveitarfélaga en við árslok voru um 270 einstaklingar í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Reykjanesbæjar og 175 einstaklingar í þjónustu hjá móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar segir ennfremur á vef Útlendingastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert