Verðlaunuð fyrir verkefni fyrir sjúkrahúsið á Vogi

(f.v.) Þórdís Rögn, Sunneva Sól, Ísól og Ari ásamt Guðna …
(f.v.) Þórdís Rögn, Sunneva Sól, Ísól og Ari ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Ísól Sigurðardóttir, nemi í tölvunarverkfræði, Sunneva Sól Ívarsdóttir, Ari Kvaran og Þórdís Rögn Jónsdóttir, nemar í iðnaðarverkfræði, hlutu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Verðlaunin hlutu fjórmenningarnir fyrir verkefnið „Betri samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi.“ Leiðbeinendur þeirra voru Guðmundur Valur Oddsson, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og Valgerður Árný Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi.

Markmið verkefnisins var að hanna og þróa frumgerð að hugbúnaði til þess að aðstoða skjólstæðinga meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi. Áhersla var lögð á að bæta samskipti við skjólstæðinga með rafrænum sjálfvirkum skilaboðum ásamt því að veita þeim greiðan aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði, hvatningu og aðstoð í aðdraganda meðferðar sem höfðar til hvers og eins. Á tímum heimsfaraldursins hefur aldrei verið jafn mikil þörf á rafrænni lausn sem býður upp á betri og fjölbreyttari þjónustu við þennan skjólstæðingahóp,“ segir í tilkynningu um málið. 

Frumgerðin unnin í nánu samstarfi við SÁÁ

Þar kemur fram að á undanförnum árum hafi eftirspurn eftir meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn á sjúkrahúsinu Vogi aukist hratt.

„Vegna mikillar aðsóknar er algengt að fólk þurfi að bíða lengi eftir innlögn en lengsti biðtími einstaklings eftir meðferð árið 2019 var yfir 300 dagar. Þessi langa bið reynist skjólstæðingum erfið, sérstaklega þar sem samskipti milli SÁÁ og skjólstæðinga eru af skornum skammti. Það er því brýn þörf á að auka þjónustu við þessa skjólstæðinga,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu frá Rannsóknarmiðstöð Íslands.

Frumgerð hugbúnaðarins var unnin í nánu samstarfi við starfsfólk SÁÁ og einstaklinga sem hafa reynslu af því að bíða eftir innlögn.

„Niðurstaða verkefnisins hefur meðal annars verið kynnt fyrir verkefnastjóra áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis sem sýndi verkefninu mikinn áhuga og sér mikil tækifæri með notkun á hugbúnaðinum.  Með notkun hans eru vonir bundnar við það að hægt sé að beina skjólstæðingum í viðeigandi úrræði og koma þannig fleirum að í afeitrun, sem þurfa á henni að halda. Hugbúnaðurinn myndi því ekki einungis skila ávinningi fyrir fólk sem glímir við áfengis- og vímuefnafíkn og aðstandendur þeirra heldur samfélagið í heild.“

Fimm önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu. Það voru verkefnin Aukið aðgengi að hugrænni atferlismeðferð (HAM): Hugmynd að borðspili, Heilaörvun með nýtingu vefþjóns, Hreinsun skólps með himnum á Íslandi, Óróasjáin “Tremv” - Ný forritseining fyrir jarðskjálftakerfið SeisComP og Sálfræðileg einkenni íslenskra knattspyrnuiðkenda: Kynning og fræðsla.

mbl.is