„Aðalmálið að brosa sig í gegnum þetta“

Hér eru Börkur (t.v.) og Gunnar Viðar eftir fyrsta dag …
Hér eru Börkur (t.v.) og Gunnar Viðar eftir fyrsta dag 250 kílómetra hlaupsins sem Börkur skipulagði sjálfur í haust. Þegar myndin var tekin höfðu þeir hlaupið 50 kílómetra en samt var brosið ekki langt undan. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk sem er að berjast við svona kvilla er í langhlaupi. Við erum að vinna okkur í gegnum þetta hring eftir hring, einn hring í einu,“ segir Börkur Reykjalín Brynjarsson ofurhlaupari sem ætlar sér að hlaupa 104 kílómetra á Varmárvelli í Mosfellsbæ á laugardag, 23. janúar, með því að hlaupa þar 400 metra hring 260 sinnum. Börkur hleypur til styrktar Píeta samtökunum og segir hlaupið táknrænt í því samhengi. 

Börkur skipulagði hlaupið ásamt Gunnari Viðari Gunnarssyni en fleiri munu hlaupa með þeim félögum, þó flestir styttri vegalengdir. Hver sem er getur bókað sér klukkustund eða klukkustundir til þess að hlaupa með þeim félögum á Varmárvelli og stutt um leið við Píeta samtökin sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum, sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

Börkur segir mikilvægt að fara af stað í hlaupið með bros á vör.

„Það þýðir ekkert annað en að gera þetta brosandi því það hefur svo mikið að segja fyrir það sem þú gerir. Ef þú ferð af stað með neikvætt hugarfar verður þetta leiðinlegt og gengur illa þannig að aðalmálið er að brosa sig í gegnum þetta.“ 

„Það þýðir ekkert annað en að gera þetta brosandi því …
„Það þýðir ekkert annað en að gera þetta brosandi því það hefur svo mikið að segja fyrir það sem þú gerir,“ segir Börkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fékk hugmyndina á leið í Hagkaup

Spurður hvers vegna hann vilji leggja Píeta samtökunum lið segir Börkur:

„Í haust var 250 kílómetra fimm daga hlaupi sem ég ætlaði í aflýst þannig að ég bjó til mitt eigið hlaup þá með stuðningi kærustunnar minnar. Svo fór ég til sjúkraþjálfara á eftir og hún spurði mig hvers vegna ég væri ekki að gera þetta fyrir eitthvað málefni. Þá byrjaði ég að velta því fyrir mér. Ég fékk þessa hugmynd svo þegar ég var að fara inn í Hagkaup og sá þá miða frá Píeta samtökunum,“ segir Börkur og bætir við.

„Ég átti tvo vini sem tóku líf sitt. Það er partur af þessu en það er orðið langt síðan þeir fóru.“

Frá kertatendrun Píeta samtakanna í lok desember.
Frá kertatendrun Píeta samtakanna í lok desember. mbl.is/Árni Sæberg

Hreyfing hefur reynst Berki besta geðlyfið

Það er eflaust ekki fyrir hvern sem er að hlaupa 260 400 metra hringi í einsleitu umhverfi. Spurður um það segir Börkur:

„Þetta er líka partur af því sem maður er að stilla upp. Fólk sem er að berjast við svona kvilla er í langhlaupi. Við erum að vinna okkur í gegnum þetta hring eftir hring, einn hring í einu. Það er líka okkar leið til þess að hvetja fólk til þess að koma sér út úr þessu og hvetja fólk til þess að hreyfa sig því fyrir okkur hefur það reynst besta geðlyfið.“

Börkur og Gunnar Viðar eru reynslumiklir hlauparar. 

„Gunnar Viðar fór 100 mílur síðasta sumar og ég er búinn að fara þrisvar sinnum í 250 kílómetra hlaup, sem er að vísu áfangahlaup þar sem eru hlaupnir 45-50 kílómetrar daglega í 5-6 daga. Ég hef ekki klárað 100 sjálfur í einum rykk svo ég er að gera það í fyrsta skipti,“ segir Börkur. 

Allir geta tekið þátt

Hlaupinu er stillt upp þannig að sem flestir geti komið með. Þannig verða átta kílómetrar hlaupnir á klukkustund og því ætti hraðinn að vera viðráðanlegur fyrir marga. Svo er einnig í boði að hlaupa minna á einni klukkustund eða jafnvel bara fara nokkra hringi á vellinum. 

„Við erum að miða við að hlaupa þannig að við getum haldið í sama hraðann allan tímann,“ segir Börkur.

Hlaupið hefst klukkan sex á laugardagsmorgun. Vegna samkomutakmarkana eru plássin í hlaupið af skornum skammti og er klukkutíminn á milli 11 og 12 til dæmis uppseldur. Ef fólk hefur ekki áhuga eða tök á að reima á sig hlaupaskóna en vill leggja málefninu lið er mögulegt að gera það með frjálsum framlögum á reikning Píeta. Reikningsnúmerið er 0301-26-041041 og kennitalan: 410416-0690. Allt söfnunarféð rennur óskipt til Píeta samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert