Bíræfinn stuldur á Patreksfirði

Stýri, mælaborð, vélartölva, túrbínur, sérmerktur framstuðari, stór millikælir fyrir túrbínurnar …
Stýri, mælaborð, vélartölva, túrbínur, sérmerktur framstuðari, stór millikælir fyrir túrbínurnar og í raun allt sem gerir venjulegan BMW með yfirbyggingarlaginu E34 að Alpina-útgáfu var numið brott í skjóli nætur. Gunnar segist ekki trúa að svona lagað gerist á Patreksfirði. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er svakalegt tjón, peningalega og ekki síður tilfinningalega, þetta er nánast eins og barnið manns,“ segir Gunnar Sean Eggertsson, vélfræðingur á Patreksfirði, sem varð fyrir heldur óskemmtilegri lífsreynslu í kjölfar atburðar sem átti sér stað einhvern tímann á bilinu aðfaranótt sunnudags til aðfaranætur þriðjudags.

Óprúttnir aðilar brutust þá inn í forláta BMW Alpina B10-bifreið Gunnars, árgerð 1991, og stálu bókstaflega öllu sem hægt var að skrúfa eða með öðru móti losa af bifreiðinni sem er Gunnari ákaflega kær eftir 20 ára eignarhald hans.

„Aðeins 507 eintök af þessum bíl voru framleidd í heiminum á fimm ára tímabili, sennilega eru ekki mikið fleiri en á fjórða hundrað af þeim í umferð enn þá og þar af tveir hér á Íslandi,“ segir Gunnar sem setti harðorðan pistil ásamt myndum af ófagurri aðkomunni á Facebook-síðu sína í gær.

„Allt dýrt við þennan bíl“

„Aldrei hélt ég að þetta myndi gerast á Patreksfirði!!! En þetta skítapakk sem kom hingað vestur og tók úr og af BMW-inum skal skila öllum þeim pörtum sem teknir voru úr bílnum, þessir þjófar verða að átta sig á því að það eru ekki nema ca 340-390 svona bílar til í öllum heiminum og þessir varahlutir eru ekki að fara að seljast hér á landi því það munu allir taka eftir því sem eitthvað eru inni í bílabransanum,“ skrifar Patreksfirðingurinn á síðu sína og býður 400.000 króna fundarlaun fyrir upplýsingar sem leiða til þess að þýfið rati til baka til eigandans.

Gunnari var illa brugðið við aðkomuna eftir að þjófar létu …
Gunnari var illa brugðið við aðkomuna eftir að þjófar létu greipar sópa um þennan 30 ára gamla BMW sem hann segir nánast eins og barn sitt. Hér sést gapandi sár eftir sérmerktan Alpina-stuðarann. Ljósmynd/Aðsend

„Það er allt dýrt við þennan bíl, hver einasti varahlutur er rándýr. Ég er að gera upp vélina í honum og var búinn að taka hana úr, blokkin er í Reykjavík og ég er að fá sérsmíðaða stimpla frá Bandaríkjunum í næstu viku. Ég var búinn að taka allt kramið úr vélinni og setja það í kassa sem var inni í bílnum og gírkassann í skottið. Ég var að gera upp húsnæði og tók bílinn út úr húsnæðinu og hann var búinn að standa í einhverja þrjá fjóra mánuði fyrir utan húsið,“ segir Gunnar frá.

Hann segir þjófana hafa gengið fagmannlega til verks, ekkert verið skemmt og allt, sem stolið var, tekið í heilu lagi af bílnum. Þarna hafi því augsýnilega einhverjir verið á ferð sem vissu alveg hvað þeir voru að gera.

„Það er platti, svona framleiðslunúmer, á bílnum, sem segir númer hvað hann er í framleiðslu og það var plokkað af, mælaborðið, stýrið, vélartölvan, túrbínan og allt í kringum vélina,“ segir Gunnar og bætir því við að allir þeir hlutir sem geri bílinn að útgáfunni Alpina hafi verið teknir.

Lögreglu borist þrjár ábendingar

„Í grunninn er þetta bara venjulegur BMW sem er breytt og settir alls konar aukahlutir og dót í hann. Annaðhvort er þetta einhver vitleysingur sem ætlar að feika B-10-bíl úr venjulegu E34-boddíi og ef hann ætlar að gera það hér á Íslandi fattast það um leið. Svo er annað, þetta eru verðmætir varahlutir úti í heimi svo það er spurning hvort þetta sé að fara í varahluti úti. Sennilega hefur einhver vitað af þessum bíl hérna og vantað varahluti og svo hefur það bara verið sótt,“ nefnir vélfræðingurinn sem eina mögulega kenningu.

Hann segir lögreglunni á Vestfjörðum þegar hafa borist þrjár ábendingar sem verið sé að skoða, en lögreglan, eins og Gunnar, setti tilkynningu um þennan bíræfna þjófnað á sína Facebook-síðu.

BMW Alpina B10-bifreið Gunnars, árgerð 1991, á meðan allt lék …
BMW Alpina B10-bifreið Gunnars, árgerð 1991, á meðan allt lék í lyndi. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar segir ófærð á vegum hafa verið nokkra á Vestfjörðum upp á síðkastið og nokkuð um lokanir og þyki honum því líklegt að þeir sem að verki voru hafi komið með ferjunni Baldri til Brjánslækjar, ekið þaðan og farið svo sömu leið til baka. „Lögreglan er komin með upptökur úr öryggismyndavélum í Baldri og allar bókanir þar og er að skoða það. En auðvitað gætu þeir líka alveg hafa komið landleiðina, ég get ekki fullyrt neitt um það.

En svo er annar möguleiki, nú er laxeldið orðið svo stórt hérna fyrir vestan að það er komið alls konar fólk í vinnu hérna og það er alveg hugsanlegt að einhver sem býr hérna núna hafi tekið þetta og sé bara að geyma þetta,“ veltir Gunnar einnig upp.

Er andskoti frekur

Hann kveður lögregluna hafa tekið málið föstum tökum og segist ánægður með röggsemina þar á bæ. „Já já, ég er mjög sáttur við viðbrögðin, reyndar er ég andskoti frekur,“ segir hann og hlær.

„Vegna veðurs komust þeir reyndar ekki í dag en rannsóknarlögreglan er að koma á morgun og skoða bílinn. Þeir báðu mig að hreyfa ekki við honum og reyna að koma honum inn í hús án þess að snerta hann og mér tókst að koma honum inn í hús með lyftara án þess að snerta hann og lögreglan er búin að mæla hér og mynda fótspor kringum bílinn.“

„Þetta er mjög tilfinnanlegt tjón og bíllinn er svo gott …
„Þetta er mjög tilfinnanlegt tjón og bíllinn er svo gott sem ónýtur því það er ekki auðvelt að fá hluti í hann utan úr heimi,“ segir Gunnar um atvikið sem hann varð fyrir einhverja síðustu nátta. Ljósmynd/Aðsend

Segist Gunnar hafa öll spjót úti í leit sinni að horfnu hlutunum og líklega hafi hann hringt 300 símtöl í gær. „Maður þekkir nú marga mismunandi menn svona gegnum lífsleiðina og þeir eru allir komnir á fullt í þetta, maður er bara með alla anga úti að leita.“

Auk þess hafi hann hringt í öll flutningafyrirtæki á Íslandi sem nú séu komin með myndir og lýsingu á hlutunum.

„Þetta er mjög tilfinnanlegt tjón og bíllinn er svo gott sem ónýtur því það er ekki auðvelt að fá hluti í hann utan úr heimi,“ segir Gunnar Sean Eggertsson á Patreksfirði, vongóður um að fá til baka það sem tekið var ófrjálsri hendi af færleik hans í skjóli nætur.

Þeir sem einhverja vitneskju kunna að hafa um þýfið eða hvar það geti verið niður komið eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 444-0400, í einkaskilaboðum á Facebook eða í gegnum tölvupóst, vestfirdir@logreglan.is.

mbl.is