Blái liturinn horfinn úr merki Viðreisnar

Viðreisn hefur tekið appelsínugula litinn upp á sína arma.
Viðreisn hefur tekið appelsínugula litinn upp á sína arma.

Viðreisn sendi í dag frá sér tilkynningu á fjölmiðla um nýtt merki, en þar kemur fram að ekki sé lengur blátt í merki flokksins, og guli liturinn sem var er orðinn appelsínugulur. 

-Eru einhver skilaboð fólgin í því að blái liturinn hverfur úr merkinu og rauðum bætt í þann gula? „Nei, og þetta er í raun ekki alveg nýtt merki, því við frumsýndum það á landsfundi flokksins í haust,“ segir Svanborg Sigmarsdóttir, framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Viðreisnar, sem sendi tilkynninguna. 

Hún segir að ekki eigi að lesa neina stefnubreytingu út úr litabreytingunni. „Við vildum bara gera merkið skýrara, og appelsínugulur er ferskur og góður litur.“

Þá segir Svanborg að bláa litnum hafi nú ekki verið alveg úthýst, þar sem húsgögn, gólf og stólar á skrifstofunni sinni séu enn fagurbláir að lit.

Svanborg Sigmarsdóttir framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Viðreisnar og verkefnastjóri sveitarstjórnarmála.
Svanborg Sigmarsdóttir framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Viðreisnar og verkefnastjóri sveitarstjórnarmála. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina