Byggingar HÍ á floti í vatni

Kalt vatn flæddi inn í margar byggingar Háskóla Íslands í …
Kalt vatn flæddi inn í margar byggingar Háskóla Íslands í nótt og ljóst að tjónið er mikið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt er á floti í flestum byggingum Háskóla Íslands eftir að rof kom á stóra kaldavatnsæð í Vesturbænum um eitt í nótt. Slökkviliðsmenn af þremur stöðvum hafa unnið að hreinsun í alla nótt og eru enn að. 

Fyrsta tilkynningin barst klukkan 1:02 til lögreglu og slökkviliðs um mikið vatnsflóð við aðalbyggingu Háskóla Íslands við Sæmundargötu en kaldavatnsæð fyrir vestan skólann, sennilega á Suðurgötu, hafði rofnað og vatn farið að flæða inn í byggingar. 

Ljóst er að það hefur orðið mikið tjón á byggingum …
Ljóst er að það hefur orðið mikið tjón á byggingum Háskóla Íslands eftir að stór kaldavatnsæð gaf sig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru, auk aðalbyggingar, Gimli, Árnagarður, Háskólatorg, Stúdentakjallarinn og fleiri byggingar á floti. Unnið er að því að dæla vatninu upp og hefur slökkviliðið fengið lánaðar aukadælur til að hreinsa vatn upp úr kjöllurum bygginganna. Óvíst er hvenær hreinsunarstarfinu lýkur en varðstjóri segir að þeir verði að eins lengi og þurfa þykir.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur unnið að hreinsun í byggingum HÍ síðan …
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur unnið að hreinsun í byggingum HÍ síðan í nótt. Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mættu starfsmenn Háskólans til að opna byggingar og fulltrúar Veitna komu og lokuðu fyrir vatnsæðina. Ekki er vitað hvað varð til þess að rof kom á æðina og ekki vitað um tjón á þessu stigi.

Uppfært klukkan 6:50

Að sögn Eyþórs Leifssonar, varðstjóra í slökkviliðinu, er fastlega gert ráð fyrir að slökkviliðið verði að störfum í byggingum HÍ til hádegis. Ljóst er að tjónið er gífurlegt.

Vegna bilunar er kaldavatnslaust í Sæmundargötu 2-10 samkvæmt upplýsingum frá Veitum.

„Við vörum þig við slysahættu vegna þess að einungis kemur heitt vatn úr blöndunartækjum. Ef þú þarft að sturta niður úr salerninu geturðu notað til þess heita vatnið. Gættu þess þó að það sé ekki alveg sjóðheitt því það getur sprengt postulín.

Þurfirðu neysluvatn meðan á kaldavatnsleysinu stendur, geturðu notað vatn úr heita krananum og kælt það. Brennisteinninn í vatninu getur valdið sumum óþægindum en er skaðlaus.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is