Ekki hægt að geyma skammtinn

Sig­ríður Dóra Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins.
Sig­ríður Dóra Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ljósmynd/Almannavarnir

Sig­ríður Dóra Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, segir að bólusetningar hafi gengið ótrúlega vel og í dag verði lokið við að bólusetja seinni hópinn úr fyrri bólusetningunni. Áherslan er á hjúkrunarheimili, nokkur sambýli og 300 starfsmenn úr framlínunni hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu auk sýnatökufólks. Allur sá hópur ætti að vera orðinn varinn við kórónuveirunni eftir um það bil viku segir hún. Þessi hópur fékk fyrri bólusetninguna á milli jóla og nýárs. 

Sigríður Dóra var gestur á upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis í dag.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Í gær var byrjað að bólusetja með bóluefni Pfizer-BioNTech sem barst nú í vikunni, alls um þrjú þúsund skammtar. Þar verður fólk sem býr á sambýlum, er í dagvist og dagþjálfun bólusett auk nokkur hundruð skjólstæðinga heimahjúkrunar. 

Reynt verður að ljúka þessum bólusetningum á morgun og er þá langt komið með að bólusetja þessa forgangshópa sem eru nefndir hér að ofan. Næsti skammtur af bóluefni kemur í næstu viku og þá verður byrjað að bólusetja elstu einstaklingana sem ekki er í þeim forgangshópum sem þegar hefur verið bólusettur og ræður þar aldur viðkomandi. Það er byrjað er á þeim elstu og svo koll af kolli.

Boð verða send út þessara einstaklinga rafrænt, þeir fá sms í síma og eins verður auglýst opið hús fyrir þessa aldurshópa við Suðurlandsbraut að sögn Sigríðar Dóru. Hún segir að jafnframt verði farið í íbúðakjarna þar sem íbúðir eldri borgara eru og þeir bólusettir þar til að spara þeim sporin á Suðurlandsbraut. Þetta verði allt auglýst vel segir Sigríður Dóra.

„Það fá allir rafrænt boð, það fá allir sms og þetta er keyrt út úr þjóðskrá,“ segir Sigríður Dóra. Þeir sem ekki fá rafrænt boð geti nýtt sér aðrar leiðir til að koma til okkar bætti hún við á fundinum. 

„Við höfum ekki marga daga til að bólusetja,“ segir Sigríður Dóra. Klára þarf bóluefnið á hverjum degi eða á tveimur dögum enda bóluefnið viðkvæmt og ekki hægt að geyma það. „Það er ekki hægt að geyma skammtinn og  koma seinna. Það verður þá bara að bíða eftir næsta bólusetningardegi segir hún.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Næsti forgangshópur á eftir fólki sem er 70 ára og eldri er fólk með undirliggjandi sjúkdóma

Varðandi yngra fólk með undirliggjandi sjúkdóma eru upplýsingarnar teknar úr gagnagrunni embættis landlæknis þannig að allir þeir sem eru þar skráðir, hafa leitað sér lækninga á Íslandi eða fengið greiningu hér á landi, munu fá boð þegar að þeirra hópi kemur segir Sigríður Dóra og bætir við að þar eigi eftir forgangsraða eftir sjúkdómum en það muni liggja fyrir fljótlega.

Hún biður þá sem eru með ofnæmi, sér í lagi bráðaofnæmi, um að hinkra með bólusetningu þangað til að skýrar línur liggja fyrir. Verið sé að vinna að upplýsingum þar að lútandi og þær væntanlegar í dag eða næstu daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert