Fólkið getur ekki snúið til síns heima

Eins og sjá má á þessari mynd eru aðstæður ekkert …
Eins og sjá má á þessari mynd eru aðstæður ekkert sérstakar á Siglufjarðarvegi. Kort/Vegagerðin

Ástandið á Siglufirði er óbreytt og rýming enn í gildi hvað varðar þau níu hús sem rýmd voru í gær. Var þetta niðurstaða stöðufundar lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sérfræðinga af Veðurstofunni, Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra og heimafólks á Siglufirði.

Fulltrúar frá Veðurstofunni og snjóflóðaeftirlitsmenn skoða svæðið á meðan bjart er og ætla að notast við dróna ef veður leyfir.

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er Siglufjarðarvegur enn lokaður en þar segir að stefnt sé að því að opna hann einhvern tímann eftir hádegið. Búið er að opna Ólafsfjarðarveg en þar er þó enn í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu.

Veðurspár gera ráð fyrir áframhaldandi úrkomu og frosti í kvöld og fram á morgundag á Tröllaskagasvæðinu.

Næsti stöðufundur vegna snjóflóðahættunnar verður haldinn klukkan 16:00 í dag og von er á tilkynningu í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert