Gunnar Smári „sósíalistaforingi í einkaþotu“

Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson.
Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson.

Bókin Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er væntanleg í bókabúðir í næstu viku eftir að útgáfu hennar var frestað fyrir jól. Jón Ásgeir fer um víðan völl í bókinni og skýtur meðal annars föstum skotum á Gunnar Smára Egilsson, stofnanda Sósíalistaflokks Íslands.

Bókin er skrifuð af rithöfundnum Einari Kárasyni og var hún flokkuð í bókatíðindum undir endurminningum og ævisögum.

Í bókinni segir Jón Ásgeir sína sögu en auk þess byggir bókin á viðtölum við aðra og einnig því sem hefur verið ritað um hann og hans fyrirtæki í gegnum tíðina. Birtir eru tveir kaflar úr bókinni í Viðskiptablaðinu í dag.

Í öðrum kaflanum er fjallað um fjölmiðlarekstur Jóns Ásgeirs fyrir hrun en auk fyrirtækja sem hann átti hér á landi fór hann í útrás með Nyhedsavisen í Danmörku sem var gefið út á árunum 2006-2008.

Enn fremur er töluvert fjallað um samstarfið við Gunnar Smára, sem var um tíma ritstjóri Fréttablaðsins, forstjóri fjölmiðlasamsteypunnar Dagsbrúnar og hélt með Jóni Ásgeiri í útrásina til Danmerkur.

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„En Gunnar Smári var alveg að missa tökin, og það næsta sem var fundið uppá var að stofna Nyhedsavisen í Danmörku,“ segir í bókakaflanum. Bent er á að engin heimavinna hafi verið unnin áður en útgáfan hófst og digurbarkalegar yfirlýsingar þegar tilkynnt var um útgáfu blaðsins hafi gefið samkeppnisaðilum tíma til að undirbúa sig.

„Gunnar Smári lét sig á endanum hverfa og tapið var gígantískt, og líka á öðru fríblaði, Boston Now vestanhafs, þótt ekki væri það sambærilegt við tapið í Danmörku. Eftir hrun var Gunnar Smári síðan fljótur að byrja að drulla okkur út í sínum ummælum og skrifum. Og svo er hann sósíalistaforingi í dag, maður sem í þá daga nennti helst ekki til Danmerkur nema að fá undir sig einkaþotu,“ segir einnig í kaflanum en bókin kemur út í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert