Hættið að senda okkur pósta

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sat fyrir svörum á upplýsingafundi dagsins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sat fyrir svörum á upplýsingafundi dagsins. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir biðlar til fólks um að hætta að senda þeim póst þar sem fólk er að reyna að komast framar í röðina til að fá bólusetningu. Mikill tími fari í að svara þessum pósti. Ef farið yrði eftir þessu þá myndi viðkvæmasti hópurinn færast aftar í röðina segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann segir að mikið sé bólusett í þessari viku. Tæplega fimm þúsund eru að fá sína seinni bólusetningu og jafnframt um þrjú þúsund að fá fyrri bólusetningu af tveimur. 

Næstu vikur fáum við heldur færri skammta af Pfizer-BioNTech en gert var ráð fyrir segir Þórólfur en það skýrist af endurskipulaginu hjá Pfizer sem miðar að því að auka framleiðslugetuna. Þetta verður bætt upp í marsmánuði þannig að heildarmagn verður óbreytt í lok mars, það er 50 þúsund skammtar. 

Hann ræddi aðeins um forgangsröðun í bólusetningar og breytingar sem þurft hefur að gera þar á vegna þess að minna magn af bóluefni hefur borist en gert var ráð fyrir. Þeir einstaklingar sem eru í forgangi eru þeir sem eru líklegastir til að smitast og þeir sem eru í mestri hættu að veikjast illa. 40 þúsund einstaklingar eru í þessum hópi að sögn Þórólfs. 

Hann segir að þetta þýði að næsti forgangshópur verði ekki boðaður í bólusetningu fyrr en í mars, það er yngri en 70 ára með undirliggjandi sjúkdóma. Hvernig bólusetningar munu ganga fer eftir því hve mikið eða hvenær við fáum meira bóluefni hingað til lands. Vonandi fær AstraZeneca leyfi í lok janúar segir Þórólfur en það þýðir að fljótlega eftir það megi eiga von á að fá þeirra bóluefni hingað til lands. 

Fram koma á fundinum að einungis fá tilfelli eru að greinast innanlands og í gær voru tekin heldur færri sýni en oft áður. Þrír liggja inni með virkt smit á Landspítala en 15 með óvirkt smit. Enginn þeirra er á gjörgæsludeild.

Ánægjulegt hversu fá smit eru utan sóttkvíar en þau greinast samt enn og því nauðsynlegt að hafa í huga að veiran er í samfélaginu segir Þórólfur. 

Líkt og fram hefur komið hefur smitum fjölgað á landamærunum og segir Þórólfur fjöldann í samræmi við fjöldi farþega og hvaðan þeir eru að koma. Þórólfur ítrekar að ekki sé tímabært að slaka á sóttvarnareglum enda aðeins vika síðan síðast var slakað á. Núverandi reglugerð gildir til 17. febrúar.

Nánar verður fjallað um fundinn á mbl.is á eftir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert