Hefði verið djarft að freista gæfunnar

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég tel nauðsynlegt þegar við ræðum um öflun bóluefna fyrir Ísland að setja sig í þau spor sem við vorum í á þeim tíma þegar sú umræða hófst,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var spurður um samninga um bóluefni gegn Covid-19 á Alþingi.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Bjarna út í orð sóttvarnalæknis frá fréttum Stöðvar 2 fyrr í vikunni þar sem fram kom að engin vinna væri í gangi um að kaupa bóluefni fram hjá samningum Evrópusambandsins.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Bjarni sagði að umræðan um öflun bóluefna hafi hafist um mitt síðasta ár. Óvissan þá hafi verið gríðarleg um hvenær bóluefni yrði til, hverjum tækist að framleiða og hvort það yrði stóra lausnin.

Ekki fyrirmunað að leita til annarra framleiðenda

„Á þeim tíma sem við ákváðum að njóta góðs af samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir var ljóst að lyfjaframleiðendur voru að sjálfsögðu að sækjast eftir því að hafa öryggi um að geta selt efnið, sem miklu var kostað til á þeim tíma að finna upp og framleiða. Ég tel að það hljóti að hafa flýtt fyrir rannsóknum, þróun og á endanum framleiðslu bóluefna að hafa haft slíka samninga,“ sagði Bjarni.

Í raun og veru stöndum við frammi fyrir spurningunni um það hvort það hefði hreinlega verið ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að fella sig ekki við það samkomulag sem þarna var undirliggjandi, að þetta væri dálítið allir fyrir einn og einn fyrir alla, og ef menn vildu freista gæfunnar einir og sér gagnvart hverjum og einum þeim framleiðanda sem Evrópusambandið var í samtali við, þá myndu þeir ekki geta notið góðs af heildarsamningi Evrópusambandsins við þá hina sömu. Það hefði verið mjög djörf ákvörðun,“ sagði Bjarni enn fremur og bætti við að þá hefðu stjórnvöld ef til vill getað náð samningum við einhvern sem síðar var ekki fyrstur á markað með lyfið.

Ég hef sömuleiðis skilið það þannig að ríkisstjórninni og okkur Íslendingum sé samkvæmt þessum samningum ekki fyrirmunað að leita til annarra framleiðenda sem mögulega kynnu að vilja bjóða fram bóluefni en eru ekki hluti af þeim fyrirtækjum sem eru í samningi við Evrópusambandið,“ sagði Bjarni.

Hann kvaðst hafa fengið bæði beint og óbeint upplýsingar um að margir séu að reyna að koma Íslendingum í tengsl við slíka aðila og það sé til skoðunar. Einnig sé enn möguleiki á einhvers konar rannsókn á Íslandi og því sé of snemmt að segja að samflot með Evrópusambandinu hafi verið mistök.

mbl.is