Hjónabakkinn innkallaður vegna ofnæmisvalda

Fólk með ofnæmi eða óþol fyrir sinnepi og/eða eggjum er …
Fólk með ofnæmi eða óþol fyrir sinnepi og/eða eggjum er beðið um að neyta ekki hjónabakkans með nýmetinu.

Múlakaffi hefur að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ákveðið að kalla inn frá neytendum svonefndan Hjónabakka þar sem ofnæmis- og óþolsvaldar koma ekki fram í innihaldslýsingu. Eru þeir sem hafa ofnæmi fyrir eggjum og/eða sinnepi beðnir um að neyta ekki bakkans.

Hjónabakkinn er seldur í verslunum Krónunnar og Melabúðinni og kemur í tveimur mismunandi gerðum, annars vegar súrmeti og hins vegar nýmeti og nær innköllunin bara til bakkans með nýmetinu. Í fréttatilkynningu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kemur fram að ástæða innköllunarinnar sé sú að ekki kemur fram í innihaldslýsingu að sinnep og egg séu í vörunni. 

Því er beint til neytenda vörunnar að þeir viðskiptavinir sem hafi ofnæmi fyrir eggjum og/eða sinnepi neyti vörunnar ekki og fargi henni, en einnig er hægt að skila henni í þeirri verslun þar sem hún var keypt gegn fullri endurgreiðslu. Tekið skal fram að neytendum sem ekki hafa ofnæmi fyrir sinnepi eða eggjum er óhætt að neyta vörunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert