Hundraða milljóna tjón í Háskóla Íslands

Slökkviliðsmenn að störfum í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ljóst er að tjón upp á hundruð milljóna króna hefur orðið í Háskóla Íslands. „Það hefur orðið gríðarlegt tjón orðið á mannvirkjum og húsbúnaði,“ segir Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands.

Hann segir að vatn hafi flætt inn í kjallara og jarðhæðir og kjallarar fyllst af vatni. „Þar skemmist allt sem fyrir verður sem þolir ekki vatn. Veggir líka,“ segir hann.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vatn flæddi inn í aðalbygginguna, Lögberg, Árnagarð, Gimli og Háskólatorg. Undirgöng liggja frá Háskólatorgi að Veröld Vigdísar. Vatn flæddi inn í göngin en það náði ekki í Veröld Vigdísar þar sem gólfið hallast upp á við að síðarnefnda húsinu.

Rafmagnslaust er í Gimli eftir að vatn flæddi þar upp á rafmagnstöflur og allt sló út. Kaldavatnsæðin sem fór í sundur er á milli aðalbyggingarinnar og Háskólatorgs við Suðurgötu.

„Það er enn verið að dæla út vatni. Þar sem hægt er er verið að sjúga það upp með vatnssugum. Það mun taka okkur einhverja mánuði að fara yfir þetta og koma þessu í lag,“ segir Kristinn.

Unnið er að hreinsun í byggingum Háskóla Íslands.
Unnið er að hreinsun í byggingum Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einhver kennsla var hafin á nýjan leik á Háskólatorgi eftir hlé vegna kórónuveirunnar. Breytingar þarf að gera hvað það varðar og mögulega verður kennslan færð aftur á netið eins og áður var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert