Minni á lokakafla í hryllingsmynd

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins og fjölmiðlamaður, vandar Jóni Ásgeiri Jóhannessyni athafnamanni ekki kveðjurnar í langri grein sem hann birti á Vísi, en þar svarar Gunnar ýmsum ásökunum sem Jón Ásgeir setur fram um Gunnar í væntanlegri bók sinni.

„Ég held ég myndi frekar lesa allt lesmál heimsins en sjálfsréttlætingu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar,“ skrifar Gunnar m.a. í greininni sem ber yfirskriftina Guð blessi Ísland. 

Eins og mbl.is hefur greint frá, þá er bókin Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar væntanleg í bókabúðir í næstu viku eftir að útgáfu hennar var frestað fyrir jól. Þar fer Jón Ásgeir um víðan völl og skýtur meðal annars föstum skotum á Gunnar Smára og er m.a. fjallað um fjölmiðlarekstur Jóns fyrir hrun og samstarf hans við Gunnar Smára. 

Delluhugmynd

Gunnar segir að Jón reyni að kenna sér um fall Dagsbrúnar sem hafi verið félag sett saman úr fjölmiðlafyrirtækinu 365, símafyrirtækinu Vodafone og tölvufyrirtækinu Kögun, sem Gunnar segir að hafi verið „delluhugmynd“.  

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. Ljósmynd/Aðsend

„Dagsbrún var því stofnuð með það markmið að þenja út efnahagsreikninginn með sameiningum og kaupum á fyrirtækjum, stækka hratt. Þessi stefna var mörkuð í samþykktum stjórnar löngu áður en ég varð forstjóri félagsins. Líka sú ákvörðun að kaupa prentsmiðju í Bretlandi, sem var tækifæri sem Landsbankinn hafði reynt að selja ýmsum svokölluðum fjárfestum á Íslandi,“ skrifar Gunnar og fer yfir þá sögu og samskipti hans við Jón.

Gunnar segir að lendingin í rekstri Dagsbrúnar hafi verið sú sem hentaði „þessum bokkum best; ekki fyrirtækinu, ekki starfsfólkinu, ekki miðlunum, engum nema þeim. Og enn síður var það mín hugmynd að skella fjölmiðlum saman við símafyrirtæki, sem bjó til endalaus vandamál vegna ólíks kúltúrs og þess að fjölmiðlafólkið vildi nýta sér dreifikerfi fjarskiptafyrirtækisins og fjarskiptafólkið helst gefa fjölmiðlana til sinna viðskiptavina.“

Ekki aðeins farsakennt heldur eins og byrjun á lokakafla hryllingsmyndar

Gunnar segir ennfremur, að það sé alrangt hjá Jóni að „hann hafi reynt fyrir sér í fjölmiðlum í útlöndum vegna þess að ég hafi heilaþvegið hann. Hann vildi vekja á sér athygli.“

Gunnar lýkur greinarskrifum sínum á því að segja að það að þurfa að sjá Jón Ásgeir í öllum fjölmiðlum næstu daga sé ekki „aðeins farsakennt heldur eins byrjun á lokakaflanum í hryllingsmynd. Það eina sem hægt er að segja við þessu er setningin sem Geir H. Haarde sagði þegar hryllingurinn frammi fyrir síðasta Hruni hríslaðist um hann, þau skemmdarverk sem Jón hafði orðið valdur af ásamt vinum sínum með stórkostlegum fjárglæfrum, sýndarviðskiptum og stjórnlausum austri peninga úr bankakerfinu: Guð blessi Ísland.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert