„Mjög verðmætur og mikilvægur farmur“

Frá flutningi Jóna Transport á bóluefni Pfizer fyrir áramót.
Frá flutningi Jóna Transport á bóluefni Pfizer fyrir áramót. Ljósmynd/Aðsend

Slæmt veður og færð setur bólusetningu á landsbyggðinni ekki í uppnám, að sögn framkvæmdastjóra Jóna Transport sem keyra og fljúga með bóluefni gegn Covid-19 á landsbyggðina. Bílstjórar með mikla reynslu keyra bóluefninu út og er jafnvel betur fylgst með bóluefnunum en nokkrum öðrum farmi.

Jónar Transport sjá um dreifingu bóluefnisins á yfir 20 staði á landsbyggðinni í samstarfi við Distica.

 „Auðvitað eru aðstæður mjög erfiðar núna á landsbyggðinni. Það er mjög stíf norðanátt og við þekkjum að það myndast mikil ísing á vegum í þessu hitastigi, það er bara gler á vegunum en þetta hefur gengið alveg áfallalaust. Við höfum ekki lent í neinum meiriháttar óhöppum,“ segir Kristján Pálsson framkvæmdastjóri Jóna Transport í samtali við mbl.is, spurður hvort dreifingin hafi farið úr skorðum vegna slæmrar færðar.

Sú er ekki raunin og allt á áætlun. 

„Við erum á mjög vel útbúnum fjórhjóladrifnum bílum og nagladekkjum og erum með sérstakar umbúðir í bílunum. Þannig að við erum með margfalda baktryggingu á hitastiginu á umbúðunum ef við myndum lenda í slæmu veðri,“ segir Kristján en bóluefnið frá Pfizer þarf að geyma við um 80 gráðu frost. Þó má geyma það við tvær til sjö gráður um nokkura daga skeið.

„Það er bara gler á vegunum en þetta hefur gengið …
„Það er bara gler á vegunum en þetta hefur gengið alveg áfallalaust. Við höfum ekki lent í neinum meiriháttar óhöppum,“ segir Kristján. Ljósmynd/Aðsend

Fylgjast náið með farminum

Vel er fylgst með staðsetningu og hitastigi lyfjanna.

„Það hafa náttúrulega orðið miklar framfarir í hitastigsmælingum og staðsetningarmælingum á lyfjum. Búnaðurinn verður alltaf betri og betri þannig að við erum bara að fylgjast með þessu frá mínútu til mínútu þannig séð. Og erum bara mjög lánsöm að vera með vana menn sem eru þjálfaðir í því að flytja lyf og þekkja öll handtök í kringum það.“

Ljósmynd/Aðsend

Er jafnvel betur fylgst með þessu en nokkrum öðrum farmi?

„Það má segja það. Þessi tækni er mikið nýtt í lyfjaflutningum. Þetta er mjög verðmætur og mikilvægur farmur og það eru allir sem vilja að þetta gangi vel. Þess vegna er mikilvægt að leggja orku í að hafa þetta í lagi og verja góðum tíma í það. Við vorum búnir að vera að undirbúa þessa flutninga í samstarfi við Distica í tvo mánuði áður en við byrjuðum,“ segir Kristján.

Spurður hvort bólusetning sé sett í uppnám ef ófært verður á einhverja staði segir Kristján svo ekki vera.

„Búnaðurinn og umbúðirnar eru alveg skotheldar í marga daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert