Ófærð og lokað vegna snjóflóðahættu

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og ófært á nokkrum leiðum eftir nóttina samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Norður- og Austurlandi er víða skafrenningur eða éljagangur. Vegirnir um Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarveg eru lokaðir vegna snjóflóðahættu og er ekki að vænta frekari upplýsinga af stöðu mála þar fyrr en eftir kl. 10.00.

Gular viðvaranir eru í gildi á Norðurlandi vestra og Ströndum auk Norðurlands eystra. Gilda þær til hádegis í dag, fimmtudag. Talsverð snjókoma, mest á Tröllaskaga með líkum á samgöngutruflunum, einkum á fjallvegum. Óvissustig er vegna snjóflóða og hættustig á Siglufirði.

Uppfært klukkan 7:50

Þæfingsfærð og skafrenningur er á Fróðárheiði. Hálka eða snjóþekja er á vegum og skafrenningur víða. Hálka eða snjóþekja er á vegum Vestfjarða og skafrenningur víða. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði en vegurinn yfir Þröskulda er lokaður. Klettsháls er ófær vegna veðurs.

Ófært er á milli Hofsóss og Ketilsáss. Þungfært er á Öxnadalsheiði, milli Dalvíkur og Hjalteyrar og á Grenivíkurvegi. Þæfingsfærð er á milli Sauðárkróks og Hofsóss. Lokað er á Siglufjarðarvegi, Ólafsfjarðarmúla, Þverárfjalli og Víkurskarði.

Ófært er á Hólasandi, Hófaskarði og á Möðrudalsöræfum en þungfært á Mývatnsöræfum og koma nánari upplýsingar síðar. Víðast hvar hálka eða snjóþekja á vegum á Norðurlandi eystra, skafrenningur og éljagangur.

Þungfært og skafrenningur er á Fjarðarheiði. Víðast hvar er hálka eða snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á Austurlandi. Lokað yfir Öxi og Breiðdalsheiði en þar er enginn vetrarþjónusta.

Nokkur hús undir Strengsgiljum á Siglufirði voru rýmd í gær vegna snjóflóðahættu. Mörg snjóflóð féllu í gær og síðustu daga á svæðinu frá Siglufirði og inn að Dalvík. M.a. stórt snjóflóð sem féll á skíðasvæðinu á Siglufirði og skemmdi skíðaskálann þar.

Ofan húsanna sem nú eru rýmd er varnargarðurinn Stóri-Boli. Hann var reistur árin 1998-1999 og hafa mörg snjóflóð fallið á hann síðan þá. Rýmingin nú er varúðarráðstöfun, þar sem við verstu aðstæður getur hluti stórra snjóflóða farið yfir varnargarða eins og sýndi sig þegar gaf yfir varnargarða á Flateyri þegar snjóflóð féllu á þá fyrir rúmu ári.

Köldu norðlægu áttirnar með ofankomu fyrir norðan og austan eru ekkert að fara að gefa eftir næstu daga en það er einna helst að sjá að hiti nái að skríða yfir frostmark syðst á landinu segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Norðan og norðaustan 8-15 en hvassari á stöku stað. Él á norðurhluta landsins en bjart sunnan heiða. Bætir heldur í vind og ofankomu fyrir norðan á morgun en annars svipað veður.
Frost víða 1 til 6 stig, en frostlaust syðst og austast.

Á föstudag og laugardag:

Norðan 13-20 m/s og snjókoma eða él, hvassast SA-lands, en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnan heiða. Frost víð 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjávarsíðuna.

Á sunnudag:
Norðan 8-15 m/s og él en léttskýjað S- og V-lands. Frost 1 til 8 stig, minnst syðst.

Á mánudag:
Norðankaldi og víða dálítil él en austlægari syðst og líkur á snjókomu þar. Harðnandi frost.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðaustlæga átt með úrkomu fyrir norðan og austan, en yfirleitt þurrt annars staðar. Áfram kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert