Óvelkominn á heimilinu

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af manni í annarlegu ástandi á heimili í Grafarvoginum síðdegis í gær. Maðurinn var óvelkominn á heimilinu og er hann grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. Manninum var vísað út af lögreglu og vettvangsskýrsla rituð.

Maður var handtekinn í Hafnarfirðinum síðdegis í gær grunaður um framleiðslu og ræktun fíkniefna. Lögreglan lagði hald á plöntur og búnað í húsnæði mannsins en hann var laus að lokinni skýrslutöku.

Tilkynnt var um innbrot í verslun í Austurbænum (hverfi 108) á þriðja tímanum í nótt. Þar var búið að opna dyr en ekki vitað hvort einhverju hafi verið stolið.

Síðdegis var tilkynnt um búðarhnupl í Breiðholti (hverfi 109) síðdegis í gær. Þar höfðu öryggisverðir stöðvað mann sem var að yfirgefa verslunina með vörur innanklæða sem hann hafði ekki greitt fyrir. Maðurinn var í tökum öryggisvarða er lögregla kom á vettvang þar sem hann hafði ætlað að yfirgefa vettvang áður en lögregla kom, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur bifreiða sviptir ökuréttindum í gærkvöldi. Annar þeirra var þar fyrir utan undir áhrifum fíkniefna en hinn hefur ítrekað verið stöðvaður af lögreglu fyrir að keyra próflaus.

mbl.is