Óvíst hversu marga þarf að bólusetja

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er vitað hversu stóran hluta þjóðarinnar þarf að bólusetja gegn Covid-19 til þess að hægt sé að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar í samfélaginu, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Viðræðum hans og Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, við lyfjaframleiðandann Pfizer um Ísland sem tilraunaland fyrir hjarðónæmi með bóluefni gegn Covid-19 er ekki lokið.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

„Við erum enn í samræðum við Pfizer en það er kannski ekkert mikið fréttnæmt á þessum tímapunkti. Við munum greina frá því á þeim tímapunkti hvort þær muni bera árangur eða ekki,“ sagði Þórólfur. 

Vonandi hraðari tilslakanir vegna bólusetningar

Megum við búast við því að takmarkanir á borð við þær sem nú eru í gildi muni gilda þar til hjarðónæmi er náð eða þar til viðkvæmir hópar hafa verið bólusettir?

„Nú vitum við ekki hvenær hjarðónæmi er náð og það er meðal annars þess vegna sem við viljum gera þessa rannsókn [með Pfizer]. Við vitum ekki hversu marga þarf að bólusetja til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu í samfélaginu, útbreiðslu hjá þeim sem eru ekki bólusettir. Við höfum talað um að það sé kannski 60 – 70 % og ég held að það sé ljóst að það mun taka einhvern tíma að ná því,“ sagði Þórólfur og bætti við:

„Varðandi slakanir á takmörkunum þá mun það ráðast mjög mikið af því hvernig staðan er hér innanlands með faraldurinn og svo hvað er að gerast á landamærunum í öðrum löndum. Þetta er það sem við þurfum að taka með í reikninginn þegar rætt er um takmarkanir og ég held að við verðum að gera það áfram en vonast til þess að við getum gert það töluvert hraðar vegna bólusetningarinnar.“

Aðspurður sagði Þórólfur að viðræður um sambærilegt tilraunaverkefni við önnur lyfjafyrirtæki en Pfizer hefðu farið fram. Ekkert fréttnæmt hefði komið út úr þeim eins og stendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert