Rannsaka hvers vegna vatnsæðin fór í sundur

Mikill vatnsleki varð í byggingum Háskóla Íslands í nótt eftir …
Mikill vatnsleki varð í byggingum Háskóla Íslands í nótt eftir að vatnsæð fór í sundur við Suðurgötu. Kort/mbl.is

Veitur eru að rannsaka hvað varð til þess að vatnsæð við Suðurgötu fór í sundur með þeim afleiðingum að 2.250 tonn af vatni runnu út sem olli miklum skemmdum í byggingum Háskóla Íslands. 

„Þarna er gömul lögn frá 1961 og við vorum að endurnýja hana. Við erum að taka saman rótarorsakagreiningu á því sem gerðist,“ segir Arndís Ósk Ólafsdóttir, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum, spurð út í hvað gerðist og hvort mannleg mistök hafi mögulega valdið lekanum. Framkvæmdirnar hafa staðið yfir í rúmt ár og eru þær hluti af mjög stóru verki.

Arndís Ósk Ólafsdóttir.
Arndís Ósk Ólafsdóttir. Ljósmynd/Veitur

Rétt fyrir klukkan eitt í nótt sást í stjórnstöð Veitna að þrýstingur hafði fallið. Fólk var strax sent á staðinn og lekinn fundinn. Búið var að loka fyrir hann átta mínútur yfir tvö, eða 75 mínútum síðar. „Þetta er stofnæð og svona aðgerðir taka alltaf tíma en þeir voru mjög fljótir og við erum mjög sátt við viðbragðið hjá okkar fólki að loka,“ bætir Arndís Ósk við.

Talað hefur verið um hundraða milljóna tjón á byggingum Háskóla Íslands. Spurð út í mögulega skaðabótaskyldu Veitna segir hún að fyrirtækið sé með ábyrgðartryggingu fyrir tjóni sem það ber ábyrgð á. Tryggingafélagið mun taka ákvörðun um ábyrgðina en fyrst þarf að fá skýra mynd af því hvað gerðist.  

Næstu skref hjá Veitum, auk rótarorsakagreiningarinnar, er að fara í vettvangsrannsókn á staðinn. Einnig er fyrirtækið í samstarfi með HÍ og slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu og er til taks ef þörf er á aðstoð.

mbl.is