Veitur harma vatnstjónið

Slökkviliðsmenn að störfum í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veitur harma vatnstjónið sem varð í Háskóla Íslands og þær afleiðingar sem það hefur haft í för með sér fyrir nemendur, starfsfólk skólans og aðra.

„Starfsfólk Veitna var að störfum í nótt og ljóst er að eignatjón er umtalsvert en sem betur fer urðu engin slys á fólki,“ segir í tilkynningu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Veitur höfðu strax í morgun samband við rektor Háskóla Íslands og buðu fram alla þá aðstoð sem hægt er að veita í þessum erfiðu aðstæðum. Einnig hafa Veitur verið í góðu sambandi við aðra hagaðila,“ segir einnig í tilkynningunni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur að upptök kaldavatnslekans séu í lokahúsi vatnsveitu sunnan við aðalbyggingu háskólans. Bakvakt var kölluð út eftir að lekans varð vart og hálftíma síðar var búið að staðsetja stofnæðarlokann og loka fyrir.

Frá Háskóla Íslands í morgun.
Frá Háskóla Íslands í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lekinn stóð í 75 mínútur, var um 500l/s og runnu alls út um 2.250 tonn af vatni. Skýringin á þessu mikla vatnsmagni er sú að stofnæðin sem fór í sundur er stór enda er hún ein af megin flutningsæðum á köldu vatni fyrir Vesturbæ Reykjavíkur. Unnið hefur verið að endurnýjun hennar, sem og öðrum Veitulögnum á Suðurgötu, undanfarið,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að nákvæm greining á atvikinu sé hafin og að kappkostað verði að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst. Fulltrúar vátryggingarfélags Veitna hafa skoðað aðstæður í dag.

Slökkviliðsmenn að störfum í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is