70 ára og eldri bólusettir fyrir marslok

Frá fyrstu bólusetningunni gegn Covid-19 á hjúkrunarheimili.
Frá fyrstu bólusetningunni gegn Covid-19 á hjúkrunarheimili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir því að í lok mars verði bólusetningu allra sem eldri eru en 70 ára lokið. Í hópnum eru um 40.000 manns. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem vísað var í á Covid.is í gær.

Sem stendur er lögð áhersla á bólusetningu aldraðra. Bólusetningu á hjúkrunarheimilum er nánast lokið.

Bólusetning á sambýlum, dagdvölum og skjólstæðinum heimahjúkrunar er hafin. 

Eldri borgarar eru næstir í forgangsröð. Fyrst verða þeir sem elstir eru bólusettir og verður svo farið niður aldursröðina.  

Heilsugæslustöðvar breyta ekki forgangsröðun

Í apríl og maí, ef áætlanir um komu bóluefnis ganga eftir, er stefnt að bólusetningu næstu forgangshópa. Þar er um að ræða Einstaklingar eldri en 60 ára, yngra fólk með ákveðnar sjúkdómsgreiningar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn.  

„Þessir einstaklingar munu fá rafrænt boð í bólusetningu. Ef það fer framhjá viðkomandi verður haft samband eftir öðrum leiðum. Það verður líka auglýst hvaða aldurshóp er verið að bólusetja hverju sinni,“ segir í tilkynningu heilsugæslunnar. 

Þar kemur fram að bólusetningar á vegum heilsugæslunnar gegn COVID-19 séu framkvæmdar samkvæmt forgangsröð. Röðin er samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis og staðfest með reglugerð. Heilsugæslustöðvar breyta ekki forgangsröð.

„Forgangshópar vegna sjúkdóma þeirra sem eru yngri en 60 ára byggjast á greiningum í sjúkraskrárkerfum heilsugæslu og landspítala. Eftir á að raða einstaklingum innan sjúkdómaflokka. Hvenær hver hópur fær bólusetningu ræðst m.a. af því hve mikið og hratt bóluefni berst til landsins. Það mun koma að öllum og enginn verður skilinn útundan.“

mbl.is