Jón Björn Hákonarson hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi vegna þingkosninga í september.
Jón er 48 ára gamall Norðfirðingur, búsettur í því hverfi sveitarfélagsins Fjarðabyggðar, ásamt eiginkonunni Hildi Völu Þorbergsdóttur og tveimur börnum.
Jón hefur starfað lengi á vettvangi sveitarstjórna, tók sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar árið 2010 og var forseti bæjarstjórnar þangað til haustið 2020 er hann tók við starfi bæjarstjóra.
Afskiptin af sveitarstjórnarmálum hófust þó fyrst á kjörtímabilinu 1994-1998 þegar hann tók fyrst sæti í nefndum á vegum sveitarfélagsins, sem þá var Neskaupstaður, og hefur hann verið virkur á þeim vettvangi síðan.
Jón hefur um árabil verið virkur í starfi Framsóknarflokksins en hann var kjörinn ritari flokksins 2016.