Sjötta safnstjóranum sagt upp

Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir.
Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir. Akureyri.net/Skapti Hallgrímsson

Safnstjóra Iðnaðarsafnsins á Akureyri hefur verið sagt upp vegna fjárskorts. Þau hafa orðið örlög allra safnstjóranna eftir að stofnandinn, Jón heitinn Arnþórsson, lét af störfum; Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, sem hefur gegnt starfinu síðan vorið 2019, er sjötta í röðinni.

„Safnið hefur verið í basli síðan ég kom hingað fyrst 2015. Ég var þá starfsmaður við skráningar í Sarp, sá síðan um allan almennan rekstur og tók við sem safnstjóri í maí 2019,“ segir Jóna Sigurlaug við Akureyri.net.

Hún segir mikinn tíma fara að í afla fjár en það dugi ekki til. „Við höfum verið með dygga styrktaraðila í gegnum árin en þeirra framlag er ekki nóg. Hollvinir safnsins hafa líka verið ómetanlegir; þeir hafa borið hitann og þungann af því að standa vaktir þegar ekki hefur verið hægt að hafa launaðan starfsmann á safninu.“

Jóna Sigurlaug er fjölmiðlafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og er með viðbótar diplómu í safnafræði frá Háskóla Íslands.

„Mér finnst þetta auðvitað mjög sorglegt. Það er sífellt mikilvægara að faglært fólk sé starfandi á söfnum og mín þekking, og sú mikla reynsla sem ég fengið á þessum árum hér, tapast nú í rauninni.“

Jóna segir það skipta miklu máli fyrir framboð á menningu og afþreyingu á Akureyri að segja jafn mikilvæga sögu og gert er á Iðnaðarsafninu; sögu sem snerti mjög marga bæjarbúa og án efa þorra eldri Akureyringa í dag, vegna þess hve margir hafa unnið í iðnfyrirtækjum í gegnum tíðina.

Hægt er að lesa fréttina í heild hér

mbl.is