Staðfesta dóm yfir manni sem réðst á nágranna sinn

Landsréttur.
Landsréttur. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur staðfesti í dag hálfs árs skilorðsbundinn dóm yfir karlmanni fyrir að aka á nágranna sinn í desember árið 2017. Menn­irn­ir eru ná­grann­ar og hafa staðið í deil­um um ára­bil.

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá því í júlí árið 2019 kom fram að maður­inn hafi verið sakaður um sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás fyr­ir að hafa ekið bif­reið aft­an á ná­granna sinn þar sem hann stóð í heim­reiðinni. Maður­inn féll við það aft­ur fyr­ir sig og hafnaði á vél­ar­hlíf bif­reiðar­inn­ar.

Maður­inn sem ekið var á hörfaði í fram­hald­inu und­an bíln­um en endaði aft­ur uppi á bíln­um þar sem hinn ákærði ók með ná­granna sinn á húdd­inu á nær­liggj­andi tún.

Ferðinni lauk með því að bíl­stjór­inn tók skarpa beygju með þeim af­leiðing­um að maður­inn ofan á húddi bíls­ins féll á jörðina og varð und­ir vinstra aft­ur­hjóli bif­reiðirn­ar. Hlaut hann við það ým­iss kon­ar sár.

Ákærði neitaði sök og sagði kröf­una byggða á því að hann hefði verið að koma í veg fyr­ir árás af hendi ná­grann­ans. Hann hefði aldrei ætlað að keyra aft­an á ná­granna sinn á heim­reiðinni en hálka hafi verið á veg­in­um og bif­reiðin runnið á mann­inn.

Að mati héraðsdóms var hátt­semi manns­ins ekki nauðsyn­leg til að verj­ast árás, sem hann sagðist hafa verið að gera. Hann er því dæmd­ur í sex mánaða skil­r­orðsbundið fang­elsi og er gert að greiða 700.000 krón­ur í skaðabæt­ur.

Landsréttur staðfesti sem fyrr segir dóm héraðsdóms, en auk þess var hinum sakfellda gert að greiða 1,2 milljónir í áfrýjunarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert