Þóra áfrýjar í máli gegn Íslensku óperunni

Þóra Einarsdóttir.
Þóra Einarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Söngkonan Þóra Einarsdóttir hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli hennar gegn Íslensku óperunni, en fyrir tveimur vikum var óperan sýknuð af kröfum Þóru um greiðslu á vangoldnum launum.

Málið snýr að verk­inu Brúðkaup Fígarós sem Íslenska óper­an frum­sýndi í sept­em­ber 2019. Nokkr­ir söngv­ar­ar kvörtuðu und­an því sem þeir sögðu óhóf­legu vinnu­álagi og leituðu til stétt­ar­fé­lags vegna þess.

Þóra kveðst vera meðlim­ur í FÍH, Fé­lagi ís­lenskra hljómlist­ar­manna, og vísaði af þeim sökum í kjara­samn­ing FÍH við Óper­una.

Óperu­stjóri sagði hins veg­ar að kjara­samn­ing­ur Íslensku óper­unn­ar og FÍH hafi aðeins gilt þegar söngv­ar­ar voru fa­stráðnir við óper­una, sem þeir eru ekki leng­ur.

Í tilkynningu frá Þóru segir að málið hafi fordæmisgildi fyrir aðra listamenn og íslenskan vinnumarkað í heild sinni og að FÍH standi á bak við hana í málinu.

„Það er mat mitt, BÍL, FÍH og lögmanna okkar að dómur héraðsdóms sé rangur í öllum meginatriðum. Í honum felast alvarleg tíðindi fyrir allt listafólk sem semur um kaup sín og kjör fyrir einstök verkefni við listastofnanir sem m.a. njóta opinbers fjárframlags. Í dóminum kemur fram að þrátt fyrir gildandi kjarasamninga milli stéttarfélaga og listastofnana sé heimilt  að greiða listamönnum minna en lágmarkskjör samkvæmt gildandi kjarasamningum. Dómurinn gengur þvert á þá lögfestu meginreglu vinnuréttar að samningar um lakari kjör en kveðið er á um í kjarasamningum séu að engu hafandi. Þá telur dómurinn að allan vafa um hvað greiða skuli samkvæmt samningum skuli túlka listamanninum í óhag,“ segir Þóra í tilkynningunni.

Segir hún dóminn reka „fleyg í samstöðu listafólks“ sem leitast hafi verið við að skapa með því að stofna stéttarfélög til að semja um lágmarkskjör. Segir hún jafnframt að listastofnanir séu í yfirburðaaðstöðu þegar komi að því að semja við listamenn. Segir hún óhjákvæmilegt að fá úr því skorið fyrir æðri dómstól hvort grundvallar réttur um að kjarasamningar um lágmarkskjör séu virtir, eða hvort hann hafi verið afnuminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert