Vinnu við varnargarða miðar vel

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. Ljósmynd/Lögreglan á Austurlandi

Hreinsunarstarf á Seyðisfirði er í ágætum farvegi. Svæðið við skriðuna telst vinnusvæði og enn lokað óviðkomandi. Vonir standa til að því verði að mestu lokið um miðjan mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra en stöðufundur var í gær með lögreglu, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu og fulltrúum Múlaþings.

Vinna við varnargarða hefur gengið vel. Garðar eru komnir saman að mestu við Búðará og meðfram farveginum úr Nautaklauf. Unnið er að því að þétta þá, hækka og styrkja. Þá hefur vinna verið í gangi ofan við Botnahlíð við veituskurð og varnargarð.

Veðurstofa hefur skilað inn bráðabirgðahættumati til Múlaþings og almannavarna fyrir svæðið utan við skriðu. Það er nú til frekari skoðunar og gætu bráðabirgðaniðurstöður um það svæði legið fyrir í næstu viku, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Unnið er að gerð landlíkans fyrir svæðið við Múlann og frummatsskýrslu um varnarkosti. Þar er unnið að lokafrágangi á bráðabirgðavarnargörðum og hreinsunarstarf enn í gangi. Með vísan til þess verður möguleg aflétting rýmingar tekin að nýju til mats í næstu viku.

Unnið er því að fullvinna rýmingarkort sem þá verður kynnt til íbúa. Útlit þess er í vinnslu og markmiðið að auðvelda aflestur þess fyrir íbúa. Vonast er til að það verði tilbúið í drögum í næstu viku.

mbl.is