Ekki hægt að treysta algjörlega á varnargarða

Snjóflóð féll á hús Önnu Sigríðar Sigurðardóttur á Flateyri í …
Snjóflóð féll á hús Önnu Sigríðar Sigurðardóttur á Flateyri í fyrra og var dóttir hennar grafin undir fannfergi í 40 mínútur. mbl.is/RAX

„Það er ljóst að það á ekki að taka neina sénsa núna. Það er verið að rýma hús fyrr út af reynslu síðasta veturs.“ Þetta segir Anna Sigríður Sigurðardóttir. Snjóflóð féll á hús hennar að Ólafstúni 14 á Flateyri í janúar í fyrra og var dóttir hennar, Alma Sóley, grafin undir fönn í 40 mínútur áður en henni var bjargað.

Anna Sigríður segir snjóflóð síðasta veturs hafa sýnt að ekki sé hægt að treysta algjörlega á varnargarða í jafnmikilli snjókomu og hefur til að mynda verið fyrir norðan síðustu daga og vikur. Þannig hafi verið tekin ákvörðun um að rýma hús undir snjóflóðavarnargarði á Siglufirði.

Þrjú íbúðarhús voru einnig rýmd á Flateyri fyrr í dag vegna snjóflóðahættu. Húsið sem Anna Sigríður og fjölskylda leigðu í bænum er innan rýmingarsvæðisins en enginn hefur búið þar frá því fjölskyldan flutti úr bænum í kjölfar snjóflóðsins í fyrra.

Fluttu suður eftir snjóflóðið

Anna Sigríður starfaði sem kennslustjóri í Lýðháskólanum á Flateyri, en eftir áfallið fór hún í veikindaleyfi og ákvað fjölskyldan í kjölfarið að flytja til borgarinnar. Hún segist bera sig vel í dag en vissar aðstæður veki upp óhug sem hafi ekki gert það áður.

„Maður reynir að telja sér trú um að þetta hafi engin áhrif á mann, en svo kemur áfallið oft seinna,“ segir hún.

„En maður verður varkárari. Ég er ekki að fara að keyra norður í brjáluðu veðri ef Öxnadalsheiðin er kannski að fara að lokast, þótt maður hefði kannski gert það áður og það verður að segjast að maður er dálítið ánægður með þennan snjólausa vetur hérna fyrir sunnan.“

Frá snjóflóðunum á Flateyri í janúar í fyrra.
Frá snjóflóðunum á Flateyri í janúar í fyrra. mbl.is/RAX

Engin hnignun í bæjarfélaginu

Anna Sigríður segist þó ekki hafa áhyggjur af því að snjóflóðahætta verði til þess að fólk upplifi sig ekki öruggt í bænum og flytji þaðan. „Ég held ekki. Það hefur verið rosalega mikil uppbygging á Flateyri á síðasta ári og peningur settur inn í bæjarfélagið í framhaldi af [snjóflóðunum].“

Ný fyrirtæki hafi sprottið upp í bænum og hreyfing sé á húsnæðismarkaði. Mikill hugur sé í bæjarbúum. Þá segist hún telja að stjórnvöld hafi efnt þau loforð sem gefin voru í kjölfar snjóflóðanna um uppbygginu bæjarfélagsins, þótt hún taki fram að aðrir kunni að vera dómbærari á það.

„Það kom innspýting með fjármagni og styrkjum og verkefnastjóri ráðinn á Flateyri sem vinnur með fólkinu þar að alls konar lausnum og uppbyggingu og það hefur gengið mjög vel. Þannig að það er engin hnignun í gangi í bæjarfélaginu – þvert á móti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert