Fimm tímar í gufubaði

Íslandsmeistarar í vaxtarrækt 1997, Magnús Bess og Nína Óskarsdóttir. Myndin …
Íslandsmeistarar í vaxtarrækt 1997, Magnús Bess og Nína Óskarsdóttir. Myndin er birt með leyfi Jóhanns A. Kristjánssonar, fyrrverandi ljósmyndara á DV, sem á veglegt einkasafn frá vaxtarræktarmótum liðinnar aldar og birtir reglulega gullmola úr því á Facebook-síðunni JAK kraftasport. Ljósmynd/Jóhann A. Kristjánsson

„Það má eiginlega segja að ég hafi fæðst með lóðin í höndunum, pabbi er náttúrulega búinn að vera í þessu alla tíð, hann byrjaði kringum 1960 og keppti sjáfur í vaxtarræktinni 1982, þegar fyrsta mótið var haldið á Íslandi. Ég smitaðist bara af honum og byrjaði svo á fullu að lyfta sjálfur þegar ég var 14 ára.“

Svo segist Magnúsi Bess vaxtarræktarmanni frá, inntur eftir upphafi ferils síns í kraftlyftingum og vaxtarrækt sem samanlagt telur á fjórða tug Íslandsmeistaratitla frá árinu 1986 að telja, tvo Norðurlandameistaratitla í vaxtarrækt, annað sæti á þriðja Norðurlandameistaramótinu, þriðja sæti á Evrópumóti og þrjá sigra á Grand Prix-mótum á Íslandi og í Noregi svo eitthvað sé nefnt, en auk þess fjölda silfur- og bronsverðlauna.

Magnús starfar sem vélvirki í álverinu í Straumsvík og hefur gert síðustu tuttugu árin og alið allan sinn aldur í Hafnarfirði. „Ég er gaflari, fæddur á Sólvangi í Hafnarfirði,“ segir Magnús, en þau Nína Óskarsdóttir, sem hampaði Íslandsmeistaratitlum á fjórum vaxtarræktarmótum á tíunda áratugnum og setti fjölda Íslandsmeta í kraftlyftingum á þeim níunda, féllust á að fara yfir ferilinn í stálinu með mbl.is en ferli Magnúsar er reyndar hvergi lokið, hann stefnir ótrauður á heimsmeistaramót í vaxtarrækt undir jól.

Bikara„skápur“ Magnúsar er orðinn býsna veglegur eftir áratuga keppnismennsku í …
Bikara„skápur“ Magnúsar er orðinn býsna veglegur eftir áratuga keppnismennsku í kraftlyftingum og vaxtarrækt. Þess ber að geta að myndin er frá 2012 svo safnið er stærra þegar þetta er skrifað. Ljósmynd/Aðsend

Segja má að tilefni spjallsins hafi verið ljósmynd af þeim Íslandsmeisturunum eftir verðlaunaafhendingu á Íslandsmeistaramótinu í vaxtarrækt 1997 sem Jóhann A. Kristjánsson, fyrrverandi skólastjóri og ljósmyndari á DV, birti á Facebook-síðu sinni, JAK kraftasport, þar sem hann leyfir hátt í eitt þúsund áhugamönnum um vaxtarrækt að njóta afraksturs starfa sinna fyrir DV á sínum tíma.

Bræðurnir kraftakarlar

„Ég byrjaði að æfa sem barn, æfði hlaup, sund og handbolta og líka hástökk og langstökk,“ segir Nína, Fáskrúðsfirðingurinn brosmildi sem margur lyftingajaxl síðustu aldar minnist með hlýju fyrir ódrepandi hressleika og óþrjótandi keppnisskap.

„Ég keppti á UÍA-móti [Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands] þegar ég var 14 ára og vann þar bæði í hástökki og langstökki. Ég stökk 140 í hástökkinu og ég var nú bara 155 á hæð þá. Þá fékk ég svona smjörþefinn af því að vera númer eitt, að vinna í einhverri keppni. Á því móti vann ég líka í langstökki og það held ég hafi nú bara verið af einskærri gleði,“ segir Nína af sinni fyrstu íþróttaástundun á áttunda áratug síðustu aldar.

Nína etur kappi við Þórönnu Héðinsdóttur á Íslandsmeistaramótinu árið 1999 …
Nína etur kappi við Þórönnu Héðinsdóttur á Íslandsmeistaramótinu árið 1999 sem haldið var á Broadway. Morgunblaðið/Golli

„Ef við förum út í kraftlyftingar og það allt þá er ég náttúrulega fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði og bræður mínir eru náttúrulega kraftakarlar,“ segir Nína og vísar til þeirra Más og Skúla Óskarssona, en Már varð alls þrettán sinnum Íslandsmeistari í kraftlyftingum auk sigra á bikarmótum og Skúla bróður hans þarf vart að kynna, heimsmeistara í réttstöðulyftu í 75 kg flokki árið 1980 auk annars sætis í léttvigt á HM í kraftlyftingum 1978, sama ár og hann varð fyrstur kraftlyftingamanna til að hljóta titilinn Íþróttamaður ársins á Íslandi. Skúli setti fimmtán Norðurlandamet en veit ekki sjálfur hve mörg Íslandsmetin urðu, eftir því sem hann sagði í viðtali árið 2018.

Pabbi smíðaði tækin

Magnús hóf lyftingar árið 1983 í annálaðri aðstöðu sem faðir hans, Júlíus Bess, rak við Strandgötuna í Hafnarfirði. „Þetta hét eiginlega ekki neitt, þetta var bara í kjallaranum á íþróttahúsinu á Strandgötunni,“ segir Magnús. „Þar mættu menn bara milli fimm og átta á daginn og tóku á því. Við vorum eiginlega undir FH, þetta hét eiginlega bara lyftingadeild FH. Menn voru að borga eitthvað mjög lítið fyrir að fá að vera þarna, bara rétt til að halda þessu gangandi,“ rifjar hann upp.

Hvernig skyldi tækjakosturinn hafa verið fyrir 40 árum?

„Hann var bara góður, pabbi smíðaði öll tækin sjálfur, frá a til ö, karlinn er helvíti flinkur að smíða og það voru allar græjur þarna sem þurfti. Þessi tæki eru nánast öll til enn þann dag í dag. Þetta var bara mjög flott gym. Hann hefur sennilega byrjað með þetta 1978 og þetta var alveg til 1992, þá fluttum við upp á Lækjargötu og opnuðum þar Lækjarþrek,“ segir Magnús og rifjar upp æfingastöð sem mörgum rótgrónum Hafnfirðingnum er í fersku minni.

„Pabbi og mamma sáu um þetta og systir mín, þau voru þarna alltaf, og ég var þarna einhver kvöld líka að vinna. Þetta var flottur staður og þarna var mikill andi, Nína var einmitt mikið að æfa þarna og allan tímann sem hún var að keppa æfði hún hjá okkur og margir strákar frá okkur voru að keppa á Íslandsmótunum og náðu góðum árangri. Þarna var bara verið að lyfta, ekkert spinning eða neitt svoleiðis.“

„Jón Páll var alltaf að ýta við mér“

Nína kveðst hafa flutt 22 ára gömul til Reykjavíkur og byrjað að lyfta lóðum í hinni fornfrægu æfingastöð við Engihjalla í Kópavogi.

„Þar voru bæði Már og Skúli að æfa og líka Jón Páll heitinn sem var stundum að vinna í afgreiðslunni. Þetta hefur verið 1984. Þá var ég nýbúin að eignast dóttur en hún var ekki komin suður. Ég var eitthvað að tala um að þegar hún kæmi gæti ég ekki æft neitt meir.

Jón Páll var þá alltaf að ýta við mér og hvatti mig til að taka stelpuna bara með á æfingar þegar hún kæmi, honum fyndist svo mikil synd ef ég hætti að æfa, honum fannst ég svo sterk. Öllum fannst það bara sjálfsagður hlutur að ég væri svo sterk af því að bræður mínir voru það,“ segir Nína og hlær við tilhugsunina um löngu horfna tíma.

„Menn fóru svo að benda mér á ýmis gildandi Íslandsmet sem þeir töldu að ég gæti nú alveg slegið og þá fór ég taka þetta af svolítilli alvöru og svo keppi ég í fyrsta sinn í kraftlyftingum árið 1986,“ segir Nína frá. „Það þýðir ekkert að spyrja mig út í einhver met, ég man ekkert af þessu, en ég setti mörg Íslandsmet í bekkpressu, réttstöðulyftu og hnébeygju á þessum árum. Ég man bara persónulegu metin mín. Á þessum árum var ég að taka 90 kíló í bekkpressu, fékk þá þyngd reyndar aldrei dæmda gilda á móti, 125 í hnébeygjum og 155 í réttstöðulyftu.“

Nína flutti svo til Svíþjóðar árið 1989 og lögðust kraftlyftingar þar með af í lífi hennar. Fram undan var glæsilegur ferill í vaxtarrækt sem hófst þó ekki fyrr en við heimkomuna frá Svíþjóð nokkrum árum síðar.

Ætlar að vinna þetta næst

Magnús Bess kallar ekki allt ömmu sína og lagði sína ferla samhliða í vaxtarrækt og kraftlyftingum.

„Ég keppti alltaf í vaxtarræktinni og svo kannski nokkrum mánuðum seinna var Íslandsmót í kraftlyftingum og þá keppti maður þar líka, var þá búinn að þyngja sig aðeins upp. Það voru nokkur ár sem ég varð Íslandsmeistari bæði í vaxtarrækt og kraftlyftingum. Ég var helöflugur í þessu þegar ég var upp á mitt besta, átti 300 í beygjum, 210 á bekk og 300 í réttstöðu,“ segir Magnús sem einnig keppti á fjölda Íslandsmeistaramóta í bekkpressu.

Magnús bleytir í sér á Spáni eftir Evrópumótið í vaxtarrækt …
Magnús bleytir í sér á Spáni eftir Evrópumótið í vaxtarrækt árið 2011. Hann segist nánast hafa fæðst með lóðin í höndunum og á ekki langt að sækja það, sonur Júlíusar Bess sem á sér 60 ára feril í kraftasporti og var einn af frumkvöðlunum á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég keppti fyrst 1986 á Íslandsmótinu í kraftlyftingum, það var fyrsta mótið sem ég keppti á, þá var ég í -75 kg flokki og þar varð ég Íslandsmeistari í fyrsta skipti. Í vaxtarræktinni keppti ég fyrst 1989, þá varð ég í fyrsta skipti Íslandsmeistari unglinga, ég var 19 ára þá, þetta mót var um vorið og ég varð tvítugur í október,“ segir Magnús frá, en hann er engan veginn hættur keppni, enda ekki nema 51 árs.

„Ég keppti síðast í hitteðfyrra á heimsmeistaramótinu í vaxtarrækt á Spáni, í plús 50 ára flokki, endaði í áttunda sæti og var nú ekkert sáttur við það. Ég er að spá í að fara aftur núna í desember og ég ætla að vinna þetta þá,“ segir Magnús gallharður, en næsta heimsmeistaramót er á dagskrá í Frakklandi ef guð og Covid leyfa.

Þrátt fyrir að þessi einbeitti íþróttamaður sé sjálfstraustið uppmálað játar hann að hafa upplifað augnablik þar sem honum leist hreinlega ekkert á blikuna.

„Ég man sérstaklega eftir Norðurlandameistaramótinu í vaxtarrækt í Helsinki í Finnlandi 2006, ég keppti í -95 kg flokki þá. Við vorum tíu í flokknum og vorum að hita upp og ég man að ég hugsaði með mér „Hvern djöfulinn er ég að gera hérna?“ Þeir voru svo hrikalegir þessir kallar allir að mér fannst ég varla sjá sjálfan mig. Svo endaði ég í öðru sæti og munaði bara einu stigi á mér og gaurnum sem vann. Maður er alltaf svo blindur á sjálfan sig,“ segir Magnús glaðhlakkalega.

Hann kveður töluverðan mun á því að keppa heima á Íslandi í samanburði við erlend mót, mótin utan landsteinanna séu öll stærri í sniðum og almennt við erfiðari andstæðinga að eiga, dómgæsla sé hins vegar svipuð alls staðar. „Auðvitað er maður ekkert alltaf sáttur við hana, nema auðvitað þegar maður vinnur,“ segir Magnús og hlær.

„Þetta er hrikaleg kelling!“

Nína sneri aftur til fósturjarðarinnar frá Svíþjóð árið 1993, í bili alla vega, og hóf vegferð sína í vaxtarrækt eftir að hafa hlotið eldskírnina í kraftlyftingum á árum áður.

„Eftir að ég kom heim var ég svona að fara á milli mismunandi líkamsræktarstöðva. Þá hitti ég Möggu vinkonu mína [Margréti Sigurðardóttur vaxtarræktarkonu] í GYM 80 og hún spyr mig sisona „Hva, ætlarðu ekki að koma og keppa á móti mér?“ Á þessum tíma þekktumst við reyndar ekkert en einhver sagði mér að hún væri margfaldur Íslandsmeistari í vaxtarrækt. „Úff, þetta er hrikaleg kelling maður!“ hugsaði ég með mér,“ rifjar Nína upp og hlær.

„Svo fór hún svona að ögra mér pínulítið og spurði hvort ég þyrði ekki að keppa á móti henni. Ég sagði nú ekki neitt en hugsaði þeim mun meira. Svo fór ég að æfa, og þá ekki bara þessar kraftlyftingagreinar, bekk, beygjur og réttstöðu, heldur fór maður að taka þessar „diskóæfingar“ líka eins og það var kallað,“ segir Nína og á við æfingar þeirra sem hyggjast hnykla massann uppi á sviði.

Nína segir það ákaflega eftirminnilegt atvik þegar þau Skúli og …
Nína segir það ákaflega eftirminnilegt atvik þegar þau Skúli og Már Óskarssynir, bræður hennar, tróðu upp á sjómannadaginn á Fáskrúðsfirði 1998 og lyftu hálfu tonni saman í réttstöðulyftu. Þessi mynd og frásögn birtist þá í Morgunblaðinu en Skúli Óskarsson setti heimsmet í réttstöðulyftu árið 1980 og lyfti rúmum 315 kílógrömmum. Morgunblaðið/Helena

„Það var reyndar bara mjög gott, ég var orðin dálítið stíf þarna og fínt að breyta um áherslur eftir kraftlyftingarnar, en þaðan hafði ég auðvitað góðan grunn. Svo fór ég að taka mataræðið í gegn og æfði klukkan sex á morgnana. Fór þá niður í GYM 80 og tók klifurvélina og hitti alltaf Möggu þar. Við tókum klukkutíma saman á klifurvélinni.“

Frábær tími í Lækjarþreki

Nína sigldi seglum þöndum að sínu fyrsta vaxtarræktarmóti, en þá kom babb í bátinn. „Þetta er trúlega 1994. Þá var vaxtarræktarmótinu seinkað um hálft ár og ég náði mér ekki á skrið aftur. Magga náttúrulega keppir og skýtur svo grimmt á mig í framhaldinu, að ég hafi ekki þorað að keppa á móti henni,“ segir Nína og skellir upp úr.

„Þetta gekk náttúrulega ekki svo þarna fer ég á fullt að æfa fyrir næsta ár. Þá er ég farin að æfa með Magga Bess og hans fólki í Lækjarþreki í Hafnarfirði. Þar var náttúrulega fjölskyldan hans með stöðina, alveg frábært fólk.

Ég var reyndar byrjuð að æfa með þeim áður en Lækjarþrek opnaði, þarna í kjallaranum við Strandgötuna sem pabbi hans Magga hélt utan um. Ég fékk að koma þangað inn og var nú bara hálfhissa, örugglega eina konan þarna. En ég var auðvitað með grunn í kraftlyftingum og þeir þekktu mig þessir karlar. Þetta var alveg frábær tími í Lækjarþreki og mjög góður hópur að æfa þarna á þessum tíma.“

Með aðstöðu í skúrnum

Hvað skyldi vera fram undan hjá Magnúsi Bess annað en heimsmeistaratitill í 50+ ára flokki í desember?

„Maður veit ekkert út af þessu kóvidi, hvernig þetta verður. Hvort það verði eitthvert mót hérna heima, en stefnan hjá mér núna er kannski aðallega heimsmeistaramótið í desember. Það verður í Frakklandi núna og mig langar að fara þangað og gera betri hluti en ég gerði síðast,“ svarar Magnús ákveðinn.

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur sett stórt strik í margan íþróttareikninginn um gervalla heimsbyggðina, gengur eitthvað að æfa?

„Ég er með fína aðstöðu í bílskúrnum hjá mér og er búinn að vera þar, ég er með hnébeygjustatíf, fullt af handlóðum, bekk og niðurtog og allt sem ég þarf,“ segir Magnús sem annars æfir jöfnum höndum á tvennum vettvangi. „Ég er bæði með kort hjá Bjössa [Birni Leifssyni í World Class] og svo er ég inni í Sporthúsi líka.

Ástand heimsmála hafi hins vegar komið hart niður á mörgum bræðrum hans í stálinu.

„Þetta hefur komið mjög illa niður á mönnum, margir eru auðvitað bara ekkert að æfa. Þetta er bara búið að vera fáránlegur tími, ég hef til dæmis aldrei æft jafn lítið og núna síðasta árið. En þá hugsar maður auðvitað með sér hvort ekki sé í lagi að hvíla þá bara aðeins eftir 37 ára juð. Ég er búinn að lyfta nánast upp á hvern einasta dag í 37 ár,“ segir Magnús.

Magnús á ekki minna barnaláni að fagna en gæfu og …
Magnús á ekki minna barnaláni að fagna en gæfu og gengi í bekkpressu og á sviði. Hér er hann ásamt konu sinni, Katrínu Evu Auðunsdóttur, og fimm börnum sínum, en Magnús á tvær dætur úr fyrra sambandi. Börnin: Ragna Dögg Magnúsdóttir, Viktoría Rós Magnúsdóttir, Ísabella Bess Magnúsdóttir, Ísak Auðunn Bess Magnússon og Birta Bess Magnúsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hann er að eigin sögn í fínu formi um þessar mundir þrátt fyrir að æfa minna. Mataræðið sé í raun að minnsta kosti jafn stór þáttur í bransanum og loftvægi lóða og hyggi hann vel að því hvað hann lætur ofan í sig. Eru þar kjúklingur, egg og fiskur efst á matseðlinum.

Undir lok spjallsins við Magnús er freistandi að heyra af Júlíusi Bess föður hans, hálfgerðri goðsögn í lifanda lífi og íþróttamanni til 60 ára.

„Hann er enn þá að lyfta karlinn, hann verður 79 ára núna og er í fínu formi, býr í Garðinum og er duglegur að hreyfa sig, syndir og lyftir. Hann er búinn að vera við þetta alla tíð og varð margfaldur Íslandsmeistari í kraftlyftingunum.

Hann byrjaði sjálfur hérna uppi á Holti í Hafnarfirði. Þetta hét Kató þar sem þeir voru að æfa,“ segir Magnús og vísar í leikskólann sem gekk undir nafninu Kató og var upphaflega skóli sem St. Jósefssystur stofnuðu við Suðurgötu árið 1930 en fluttist svo að Hlíðarbraut á Holtinu. Kató var lokað árið 2015 eftir rúmlega 80 ára sögu og var lokunin umdeild í Firðinum.

Hrikalegir feðgar, Júlíus og Magnús Bess, árið 1992. Fjöldi fólks …
Hrikalegir feðgar, Júlíus og Magnús Bess, árið 1992. Fjöldi fólks æfði hjá fjölskyldunni í Lækjarþreki sem opnaði dyr sínar 1992 og var þar að sögn kunnugra gríðarlegur andi. Ljósmynd/Aðsend

„Þar fengu þeir inni, pabbi og einhverjir vinir hans, og voru bara að lyfta einhverjum stálbitum og drasli, þetta hefur verið svona '59 eða '60 og hann keppti svo fyrst í kraftlyftingum einhvern tímann upp úr 1970, ég er ekki alveg klár á árinu. Maður fæddist með þessa bakteríu frá honum og lá beinast við að ég færi beint í þetta sem ég gerði 14 ára gamall,“ segir Magnús Bess að skilnaði, keppnismaður í 35 ár og hvergi nærri hættur.

Alklædd í gufu í fimm tíma

Sögunni víkur aftur til tíunda áratugar síðustu aldar og fyrstu skrefa Austfirðingsins vígreifa, Nínu Óskarsdóttur, í keppnismennsku í vaxtarrækt.

„Já, þarna var komið að því, mótið 1995, það er vigtun í hádeginu og kvöldið áður er ég 57,9 og eitthvað kíló og átti að keppa í +57 kg flokki, var þannig séð alveg á réttum stað nema að ég er mjög létt í þeim flokki,“ segir hún. „Magga hefur trúlega verið kringum 60 eða rúmlega það og það er náttúrulega aldrei gott að vera léttur í sínum flokki. Þannig að ég tek þá ákvörðun að reyna bara að létta mig niður í -57.

Tíminn var af skornum skammti, vigtun á hádegi mótsdaginn, svo nú dugðu engin vettlingatök.

„Ég mætti niður í GYM 80 klukkan sjö morguninn eftir og fór í gufu í öllum fötunum. Sat þar bara fram að hádegi nema hvað ég kom út annað slagið til að vigta mig. Svo er komið að vigtuninni í hádeginu og viti menn, ég er þá 50 grömmum undir, náði af mér 900 grömmum í gufunni og var þyngsti keppandi í -57.“

Nína rúllar upp Íslandsmeistaramótinu í vaxtarrækt árið 1999 eftir að …
Nína rúllar upp Íslandsmeistaramótinu í vaxtarrækt árið 1999 eftir að efinn sótti að henni í kjölfar mótsins 1997. Hún flutti þá til Ísafjarðar en ákvað að snúa aftur á sviðið '99 vegna fjölda áskorana og má segja að hún hafi hætt á toppnum. Morgunblaðið/Golli

Svo fóru leikar að Nína fór með sigur af hólmi hvort tveggja í sínum þyngdarflokki og opnum flokki og sótti þar með sína fyrstu Íslandsmeistaratitla í vaxtarrækt.

„Ég gerði mér enga grein fyrir því hvernig ég leit út, þarna voru engar vídeóupptökur eða neitt, þú sást bara það sem þú sást í spegli og maður vissi ekkert hvernig maður leit út að aftan. En Skúli bróðir mætti svo á mótið og tók vídeó. Og ég þekkti mig hreinlega ekki á upptökunni. Ég var ekki nema 57 kíló og hafði aldrei skorið niður, ég var alltaf í kringum 65 þegar ég var að keppa í kraftlyftingunum og keppti þá oftast í 62 kg flokki og þurfti oftast að létta mig um tvö þrjú kíló fyrir mót, en þarna var ég 67 kíló og létti mig um tíu kíló fyrir vaxtarræktarmótið. Ég kunni náttúrulega ekki neitt, maður var að læra gegnum öll þessi blöð, Body & Fitness og hvað þetta hét allt saman,“ segir Nína um fyrstu skrefin sem þó skiluðu henni sigri í þyngdarflokki og opnum flokki.

Datt í konfektkassann

Nína átti eftir að hala inn þrjá Íslandsmeistaratitla til viðbótar á vaxtarræktarmótum, árin 1996, '97 og '99. „Ég var svona hvað óánægðust með mig '97, þarna þegar myndin var tekin sem þú vilt endilega nota, græna bikiníið, alveg hryllilega ljótt,“ segir Nína og hlær dátt. „Ég var ekki sátt við formið á mér það mót og hugsaði með mér hvað ertu að gera þarna uppi feita kelling? Þannig að ég var ekki með '98, taktu þér bara frí, fólk er orðið hundleitt á þér, hugsaði ég.

Fyrir þetta mót vorum við Fríða Rún [Þórðardóttir, hlaupagikkur og vaxtarræktarkona] með Sölva Fannar [Viðarsson, lyftinga- og vaxtarræktarmann] sem einkaþjálfara og hann gaf sko ekkert eftir. Eitt skiptið eftir að hann hafði pískað okkur í hnébeygju og öðrum lappaæfingum sagði ég honum að mér væri óglatt og hann sagði mér að vera ekki að þessu væli. Eftir að hafa kyngt bæði stolti og ælu hljóp ég nú samt inn á klósett og ældi eins og múkki.

Skúli Óskarsson, bróðir Nínu, er einn kunnasti og vinsælasti kraftlyftingamaður …
Skúli Óskarsson, bróðir Nínu, er einn kunnasti og vinsælasti kraftlyftingamaður sem Ísland hefur alið af sér. Hann setti glæsilegt heimsmet í réttstöðulyftu árið 1980, 315,15 kg, auk þess að lenda í öðru sæti á HM í kraftlyftingum 1978. Skúli varð fyrstur kraftlyftingamanna til að hljóta titilinn Íþróttamaður ársins á Íslandi, árið 1978 og hlaut hann svo aftur 1980. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Þetta var eftir að ég hafði játað fyrir Sölva að hafa dottið í konfektkassann daginn áður og kom á æfingu í hrikalega vondu skapi yfir að vera svona mikill aumingi og sagði Sölva að nú skyldi hann ekki gefa neitt eftir svo þetta var auðvitað sjálfri mér að kenna. Hann var alveg frábær þjálfari og maður bar mikla virðingu fyrir honum,“ rifjar Nína upp en sjálf starfaði hún einnig lengi sem einkaþjálfari í World Class.

„Viljið þið hafa þær svona stórar?“

„Ég flutti svo til Ísafjarðar og auðvitað vann Magga 1998 og svo kom að því að ég var farin að fá símtöl vestur frá hinum og þessum sem voru í sportinu og spurðu mig hvort ég ætlaði virkilega ekki að koma aftur. Þarna var ég með spinning-tíma og einkaþjálfun í Stúdíó Dan á Ísafirði, hjá Stefáni Dan heitnum sem reyndist mér mjög vel og er sárt saknað. Ég var í ágætu formi þannig lagað, svo ég ákvað að slá til og taka eitt lokamót og keppti þá fyrir Stúdíó Dan á þessu síðasta vaxtarræktarmóti mínu í desember 1999 sem var minn síðasti Íslandsmeistaratitill.

Á þessu móti var einn erlendur dómari, mig minnir að hann hafi verið danskur. Honum fannst við víst vera orðnar fullmassaðar sumar, konurnar, og bað um pásu og stuttan dómarafund áður en þeir byrjuðu að dæma, ég fékk að vita þetta seinna. Hann sagði þá við hina dómarana: „Nú verðið þið að ákveða hvert þið viljið leiða vaxtarræktarkonurnar ykkar. Viljið þið hafa þær svona stórar eða viljið þið flottar kvenlegar konur?“

Magnús nælir sér í tvo Íslandsmeistaratitla, í þyngdarflokki og opnum …
Magnús nælir sér í tvo Íslandsmeistaratitla, í þyngdarflokki og opnum flokki, á ÍM 2005 sem haldið var í Sjallanum á Akureyri. Morgunblaðið/Kristján

Honum fannst ég víst orðin ansi mikil um mig yfir bakið og lærin. En íslensku dómararnir ýttu þessum athugasemdum til hliðar, sögðu honum bara að þetta væri vaxtarræktarmót og fólk ætti þá að vera með stóra vöðva,“ segir Nína og er greinilega skemmt yfir minningum af sínum hinsta dansi í vaxtarræktinni.

Oftast jákvætt, en...

Hvernig var að vera kona í íþróttagreinum á borð við kraftlyftingar og vaxtarrækt á öldinni sem leið?

„Það var svo sem gaman að mörgu leyti. Maður fékk auðvitað mjög mikla athygli, fólk var hangandi yfir öxlina á manni hvar sem maður kom að spyrja um ýmislegt. Auðvitað hafði maður gaman af þessu, að mestu leyti var þetta bara jákvætt en svo fékk maður auðvitað hinar athugasemdirnar líka, þetta er nú ekki kvenlegt, af hverju ertu að þessu og svo framvegis. Fólk hringdi jafnvel heim til mín til að segja mér hvað því fannst og það var ekki alltaf fallegt,“ játar Nína.

Var mikið um það?

„Nei, það var það nú ekki en ég man sérstaklega eftir þremur skiptum. Ég svara alltaf í símann með nafninu mínu, „já, þetta er Nína,“ ég hef alltaf gert það. Manneskjan sem hringir veit þá við hvern hún talar. Eitt skiptið hringdi kvenmaður og hún kom sér bara beint að efninu og spurði: „Af hverju ertu að þessu? Þetta er ógeðslega ljótt.“ Og ég sagði bara við hana: „Guð minn góður, á ég að hringja í þig næst þegar ég er að gera einhverjar breytingar í lífi mínu?“ Þá lagði hún bara á mig. Annað skiptið var þegar karlmaður hringdi og sagði einfaldlega bara „Þú ert ógeðsleg,“ og lagði svo á.

Þriðja tilfellið var svolítið meira og það voru fleiri en eitt símtal. Það var um miðja nótt, þá var greinilega einhver að koma heim eftir ball. Ég lá heima sofandi með fjölskyldunni minni þegar síminn hringdi og á hinum endanum var bara þögn. Þetta endurtók sig svo nokkrum sinnum og loksins tókst mér að fá þessa manneskju til að tala, spurði hvers vegna viðkomandi væri að hringja um miðja nótt og hvort hann eða hún þekkti mig.

Fjölskyldan í Svíþjóð á leið á æfingu. Róbert Guðmundsson, maður …
Fjölskyldan í Svíþjóð á leið á æfingu. Róbert Guðmundsson, maður Margrétar Kristínar, eða Grétu, dóttur Nínu, Peyman Damirchi, maður Nínu, Abbe Ahmed, maður Rakelar, dóttur Nínu, Gréta fitness-skvísa, „svo er það sú gamla í öllu sínu veldi og ömmugullin mín, Bjartur, Dagbjört og síðust er Birta, allt börn Grétu“. Ljósmynd/Aðsend

Þá svaraði karlmaður „Já, ég þekki þig,“ og hvíslaði svo ég þekkti ekki röddina og þarna var mér verulega brugðið, fann bara hvernig hárin risu á hnakkanum á mér. Ég spurði þá hvaðan hann þekkti mig og þá var hvíslað með þessari ógeðfelldu rödd: „Úr æfingastöðinni.“ Ég sagði honum þá vinsamlegast að tala bara við mig þar, ég væri mjög félagslynd og talaði við alla, hann skyldi alla vega hætta að hringja í mig á nóttunni.“

Með því samtali lauk símaónæðinu sem þó skildi eftir sig slæmar minningar hjá Nínu. „Hann hringdi aldrei eftir það en ég sagði strákunum í Lækjarþreki frá þessu og þeir urðu alveg brjálaðir, ætluðu bara að fara að leita hann uppi og ég veit ekki hvað. En eftir þetta varð ég rosalega vör um mig og fór að horfa á alla sem mér fannst horfa skringilega á mig, ætli það sé þessi, hann lítur undan, og þetta var mjög óþægilegt. En þetta eru líka einu skiptin sem ég upplifði eitthvað óþægilegt, annars var þetta bara gaman, fólk að spyrja hvort ég vildi koma í sjómann og svona,“ rifjar Nína upp og hlær.

Covid hreinn viðbjóður

Nína flutti aftur til Svíþjóðar árið 2002 þar sem hún hefur búið síðan og rekur ásamt annarri manneskju hárgreiðslustofu í Lundi, á annáluðum Íslendingaslóðum.

„Ég var nú næstum farin að keppa hérna reyndar, það var 2004 eða '05. Maður sem rekur æfingastöð hérna vildi fá mig til að vera með á sænska meistaramótinu, hann var alveg ákveðinn í því. En þá var ég ekki sænskur ríkisborgari og mátti því ekki keppa á því móti. Og þá hugsaði ég með mér af hverju ég væri að spá í þetta, ég væri búin að ákveða að hætta í þessu. Ég fann að ég var að láta ýta mér út í eitthvað sem ég í raun vildi ekki.

Ég kynntist svo manninum mínum 2005 og eftir það varð minna um æfingar hjá mér, ég er auðvitað eitthvað að gera í dag en það er mest um helgar, ég er farin út klukkan sjö á morgnana í vinnu og kem heim sex sjö að kvöldi. Áherslurnar eru bara aðrar í dag.“

Svíþjóð hefur verið áberandi á Norðurlöndunum fyrir að verða sérstaklega illa fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum, þar eru nú yfir 10.000 manns látnir af völdum Covid-19. Hvernig hefur Nína upplifað þessa undarlegu tilveru síðasta árið?

Magnús ber sigur úr býtum á Grand Prix-mótinu í Ósló …
Magnús ber sigur úr býtum á Grand Prix-mótinu í Ósló árið 2009. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er búið að vera hreinn viðbjóður þetta síðasta ár og rosalega erfitt í sambandi við vinnuna. Ég er náttúrulega með eigið fyrirtæki og fólk hefur verið mjög hrætt við að koma í klippingu af ótta við að fá þennan óþverra. Við erum með litla stofu og ég hef verið mikið ein þar núna upp á síðkastið og svo varð ég veik í desember. Ég lá bara í rúma viku, rétt staulaðist fram á klósett til að taka höfuðverkjatöflur og hóstameðal. Ég fór í próf og þetta var Covid sem ég fékk svo ég var bara heima allan desember, byrjaði að vinna aftur 4. janúar,“ segir hún af óvenjulegum jólamánuði 2020.

Myndi ekki gera margt öðruvísi

„Maður er bara lúinn eftir þetta, ég finn að ég þreytist fyrr og ég þarf ekki annað en að labba rösklega þá er hjartslátturinn kominn alveg upp í haus. Ég fæ líka þursabit mjög auðveldlega og allt svona sem hefur verið vandamál, eins og mjóbakið og axlirnar, núna þarf voðalega lítið til að ég fari að finna fyrir því. Ég er yfirleitt að vinna með handleggina í hárri stöðu svo þetta getur verið mjög óþægilegt. Allt svona sem hefur verið eitthvað að plaga mig áður kemur núna fram auk þess sem ég er með hausverk endalaust. Þegar eitt er orðið gott byrjar það næsta svo þetta er alltaf að minna á sig.

Svo þarf maður auðvitað að vera með grímu og á stofunni hjá mér, sem er frekar lítil, má bara vera einn kúnni á hverjum tíu fermetrum og stofan er bara 30 fermetrar og hluti af því er eldhús. En þetta á vonandi eftir að batna núna þegar farið er að bólusetja,“ segir Nína vongóð.

Hvernig er að búa í Svíþjóð þrátt fyrir allt saman?

„Ég er rosalega ánægð hérna. Fólk er alltaf að spyrja mig hvernig ég nenni að búa í Svíþjóð, Svíar séu svo leiðinlegir, en það er nú bara af því að fólk þekkir ekki Svía. Þeir eru svolítið lokaðir og hleypa manni kannski ekkert inn strax. Maður mætir ekkert bara í kaffi, allt þarf að vera tímasett fyrir fram.

Maður hringir kannski í vini sína og spyr hvort þeir séu lausir á morgun. „Ha, á morgun? Nei, geturðu ekki bara komið um helgina?“ er þá oft viðkvæðið. En þetta er ofboðslega vinalegt fólk og mér finnst Svíar alveg æðislegir. Ætli maður verði ekki bara hér. Ég spyr karlinn minn oft hvort við ættum ekki að flytja til Íslands, hann er frá Íran. Og þá segir hann „Það er sko nógu kalt í Svíþjóð!“

En svona þegar maður lítur yfir þetta allt saman þarna í gamla daga. Flest íþróttafólk æfir mikið og oftast snýst tilveran um mann sjálfan og að vera í hundrað prósent vinnu, halda heimili, ala upp börn – og ég var einstæð móðir hluta þessa tíma – og svo undirbúning fyrir keppnir. Þetta hefur að sjálfsögðu tekið ótrúlega mikinn tíma frá börnunum mínum, en svona eftir á að hyggja þegar ég lít í baksýnisspegilinn þá er ekki margt sem ég myndi gera öðruvísi,“ segir Fáskrúðsfirðingurinn og íþróttagarpurinn Nína Óskarsdóttir að skilnaði frá Svíaríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert