Vilhjálmur stefnir á prófkjör

Vilhjálmur Bjarnason stefnir á prófkjör í Suðvesturkjördæmi.
Vilhjálmur Bjarnason stefnir á prófkjör í Suðvesturkjördæmi. mbl.is/Hanna

Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, hyggst gefa kost á sér í mögulegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Frá þessu greinir hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Vilhjálmur var kjörinn á þing bæði árin 2013 og 2016, en í greininni rifjar hann upp að í fyrra skiptið hafi hann endað í fjórða sæti listans þrátt fyrir að hafa fengið næstflest atkvæði í prófkjörinu og næstflest atkvæði í efsta sætið. Í seinna skiptið hafi hann verið færður niður úr fjórða í fimmta sætið. „Og ég hélt friðinn! Án þess að fá aukatekið takk fyrir! Þeir, sem á undan mér voru, töldu þessa tilfærslu tæra snilld, enda var hún ekki á þeirra kostnað,“ segir Vilhjálmur í greininni.

Vilhjálmur fékk einnig fimmta sætið árið eftir fyrir þingkosningarnar 2017, en í það skiptið dugði fimmta sætið ekki til þess að ná inn á þing.

Segist hann núna ætla að stefna eins ofarlega og kostur er, „því það virðist regla fremur en undantekning að skáka mér til á listanum“.

Listar Vilhjálmur upp sín helstu stefnumál og feril í stjórnmálum og segist jafnframt hafa reynt að koma sínum hugmyndum fram á annan veg en samferðamenn sínir.

mbl.is

Bloggað um fréttina