Ævar fyrsti sendiherra Unicef á Íslandi

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, og Ævar Þór Benediktsson, …
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, og Ævar Þór Benediktsson, nýr sendiherra samtakanna. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Ævar Þór Benediktsson, þekktur sem Ævar vísindamaður, hefur verið skipaður sendiherra Unicef á Íslandi, fyrstur Íslendinga.

Hlutverk sendiherra er að styðja baráttu Unicef fyrir réttindum barna en Ævar skipar sér nú í sveit með ekki ómerkara fólki en knattspyrnumanninum Sergio Ramos, leikaranum Evan McGregor og uppistandaranum Eddie Izzard, sem öll gegna embætti sendiherra Unicef.

„Menntun og menning skipta miklu máli og eru tvær af grunnstoðum þess sem móta okkur sem manneskjur. Samspil þessara tveggja þátta er eitthvað sem hefur litað störf mín í gegnum árin og þess vegna hlakka ég til að finna nýjar og spennandi leiðir til að nálgast þær og kynna fyrir komandi kynslóðum,“ er haft eftir Ævari í tilkynningu frá Unicef.

Helgað líf sitt börnum

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, segir Ævar einstaklega vel að nafnbótinni kominn enda hafi hann helgað feril sinn börnum með öllum sínum fjölbreyttu hæfileikum.

„Við höfum notið farsæls samstarfs við hann um langa hríð og því byggjum við þetta nýja skref á góðum grunni. Ævar Þór er góð fyrirmynd sem nær jafnt til barna og fullorðinna og við hlökkum til þess að vinna markvisst með honum að réttindum barna. Það verður spennandi að sjá hvað við munum gera saman.“

Réttindi barna til menntunar hafa verið meðal forgangsmála Unicef frá því samtökin voru stofnuð árið 1946. Kórónuveirufaraldurinn heftur verið áskorun þar sem annars staðar og er talið að takmarkanir vegna faraldursins hafi haft áhrif á menntun hátt í 90% allra skólabarna heims. 

UNICEF hefur brugðist við heimsfaraldrinum á ýmsan hátt, meðal annars komið á fjarkennslu í gegnum útvarp í Rúanda, sett upp viðunandi hreinlætisaðstöðu og dreift spritti og grímum í skólum í Jemen til að tryggja sóttvarnir, útdeilt námsgögnum í flóttamannabúðum í Jórdaníu og unnið með foreldrum skólabarna í Úkraínu til að þau geti stutt menntun barna sinna á þessum tímum, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert