Rýmingu aflétt á Siglufirði

Frá snjómokstri á Siglufirði.
Frá snjómokstri á Siglufirði. Sigurður Ægisson

Rýmingu hefur verið aflétt af húsum á sunnanverðum Siglufirði, sem rýmd voru í öryggisskyni á miðvikudag vegna snjóflóðahættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Þar segir að dregið hafi úr veðri frá því í gær og minni útkoma mælst í sjálfvirkum úrkomumælum. Vindur á Norðurlandi hefur jafnframt snúist meira til austurs en það er talið draga úr hættu á snjóflóðum úr Hafnarfjalli.

Áfram er hætta af völdum snjóflóða þar sem snjóalög kunna enn að vera óstöðug, meðal annars sunnan við leiðigarðinn Stóra-Bola þótt rýmingu húsa neðan garðsins hafi verið aflétt. Því bendir lögreglan á að sýna þurfi sérstaka aðgæslu og er fólk beðið um að vera ekki á ferli ofan varnargarða.

Enn er óvissustig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi. Stór snjóflóð hafa fallið undanfarna daga á Tröllaskaga, meðal annars við Smiðsgerði í austanverðum Skagafirði, á Öxnadalsheiði og á Ólafsfjarðarveg. Síðast féll snjóflóð á veginn um Öxnadalsheiði í morgun.

mbl.is