„Þetta er undir mínu nafni, sem er svolítið leiðinlegt“

Netsvikarar nýta sér persónu Ólafs Laufdal til þess að hafa …
Netsvikarar nýta sér persónu Ólafs Laufdal til þess að hafa af fólki fé. Ljósmynd/Aðsend

Fjöldi fólks hafði samband við Ólaf Laufdal húðflúrara í gær eftir að falskur aðgangur á Instagram undir hans nafni fór að senda fólki skilaboð til þess að telja því trú um að það hafi unnið í leik. Óprúttinn aðili náði að hafa fé af að minnsta kosti einni sem hafði samband við Ólaf vegna svikanna.

Aðgangurinn leiðir fólk á vefsíðu þar sem það er hvatt til þess að setja inn fjárhagsupplýsingar, svo hægt sé að hafa af því fé.

Nokkrir hafa fallið fyrir svindlinu.
Nokkrir hafa fallið fyrir svindlinu. Skjáskot/Instagram

„Maður hefur heyrt um fyrirtæki sem eru að lenda í þessu en þetta er undir mínu nafni, sem er svolítið leiðinlegt,“ segir hann. 

Ólafur fékk fólk til þess að tilkynna aðganginn: „Síðan þá er búið að búa til þrjá aðra nýja svona. Það kemur alltaf nýr og nýr,“ segir hann. Hann vill koma því á framfæri við sem flesta að óprúttinn aðili sé þarna að baki, og hvetur fólk til þess að tilkynna aðgangana.

Nokkrir aðgangar á borð við þennan hafa verið stofnaðir, til …
Nokkrir aðgangar á borð við þennan hafa verið stofnaðir, til þess að svindla á fólki. Ljósmynd/Aðsend

Eftir að Ólafur og fleiri hófu að tilkynna svindl-aðganginn spruttu upp þrír nýir falskir aðgangar sem bera ýmis heiti, t.d. olafurlauf.daltattoo, olafuurlaufdaltattoo og olafuurlaaufdalttattoo.

mbl.is