Útilokar ekki ríkisstjórnarsamstarf með Miðflokknum

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, útilokar ekki að geta starfað með Miðflokknum eftir kosningar í haust. Hann segir þó stefnur flokkanna vera mjög ólíkar. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Sigurður Ingi byrjaði á að segja að Framsóknarflokkurinn væri miðjuflokkur og væri á móti öfgum. Þegar hann var spurður nánar um hvaða flokkar væru öfgaflokkar sagði hann að það ætti meðal annars við um þá sem vilja koma hér upp sósíalísku eða frjálshyggjuríki. Sagði Sigurður að Framsókn stæði fyrir hugmyndafræði þar sem frelsi fylgdi ábyrgð og að best væri að hafa frelsi samhliða aðkomu ríkisins.

Spurði stjórnandinn hann næst hvort hann gæti hugsað sér að starfa með Miðflokknum. „Ég hugsa að við getum unnið með Miðflokknum líkt og með öðrum,“ sagði Sigurður, en bætti við að flokkarnir væru samt mjög ólíkir. Þannig teldi hann að það hefði komið skýrt í ljós að mikill munur væri á þeim sem hugsuðu sér að kjósa Framsókn og Miðflokkinn og að stefnur flokkanna væru ólíkari en stefnur margra annarra flokka.

Stjórnandi þáttarins spurði um aðrar mögulegar stjórnarmyndanir og var Sigurður opinn fyrir flestum möguleikum. Þannig svaraði hann því játandi að hann gæti hugsað sér samstarf í grænni félagshyggjustjórn sem og í frjálslyndri miðjustjórn.

mbl.is