„Við búum hérna til að hafa snjó“

Snjóruðningar á Akureyri.
Snjóruðningar á Akureyri. mbl.is/Þorgeir

Þeir fara snemma á fætur snjómokstursmennirnir hjá Akureyrarbæ enda oftar en ekki ærið verk sem bíður þeirra. Ein yfirferð um götur bæjarins getur tekið allt að viku þrátt fyrir að hafa yfir um 30 snjóruðningstækjum að ráða.

Jón Hansen er forstöðumaður snjómoksturs hjá Akureyrarbæ.

„Nei, nei, þetta er nú bara svona sýnishorn af því sem var í fyrra,“ segir hann við mbl.is, spurður að því hvort ekki sé snjóþungt.

„Við förum út svona fimm á morgnana og erum að klára svona undir kvöldmatarleytið.“

mbl.is/Þorgeir

Vilja bara meiri snjó

Jón segir að hann og hans menn sjái um að ryðja götur bæjarins og „bara svona í kringum göturnar líka“. Fólk þarf auðvitað að komast leiða sinna, eins og hann bendir réttilega á.

Að sögn Jóns er snjódýptin á Akureyri ekki umtalsverð í augum þeirra sem vanir eru þótt blaðamaður úr Reykjavík sé á öðru máli. Eins og sjá má á myndum frá Þorgeiri Baldurssyni ljósmyndara var fólk í óða önn við að moka út bíla sína.

mbl.is/Þorgeir

„Þetta er bara svona æfing fyrir komandi átök,“ segir Jón.

Nú jæja, en þá er bara að vona að það kafsnjói ekki í nótt.

„Nei, þvert á móti, við þurfum snjó í fjallið til að komast á skíði. Það er fjöldi fólks hérna í bænum sem vill hafa sem mestan snjó í fjallinu. Við búum hérna til að hafa snjó,“ segir Jón áður en hann kveður með virktum, enda í miðju kafi við að moka.

mbl.is/Þorgeir
mbl.is