Allt að 60 fengið aðstoð vegna árásarinnar

Lögreglumenn að störfum við Borgarholtsskóla um miðjan mánuðinn.
Lögreglumenn að störfum við Borgarholtsskóla um miðjan mánuðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á bilinu 50 til 60 nemendur og kennarar í Borgarholtsskóla hafa þegið aðstoð sérfræðinga í áfallahjálp eftir árásina sem var gerð í skólanum fyrr í mánuðinum. Bæði hafa þau fengið hjálp frá sérfræðingateymi Miðgarðs og Grafarvogskirkju.

„Mörgum leið illa eftir að hafa séð fólk alblóðugt. Að sjá svona ofbeldi fer rosalega illa í okkur öll og fer á sálina,“ segir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, spurður hvernig skólinn hefur tekist á við það sem gerðist. „Þetta er flott fólk í alla staði og kann ég þeim mikið þakklæti fyrir stuðninginn sem við höfum fengið,“ bætir hann við um fulltrúa Miðgarðs og kirkjunnar.

Hann segir þessa vinnu sem og skólastarfið allt hafa gengið mjög vel síðan árásin var gerð. Friður og samkennd ríki í skólanum. Þar hafi hjálpað til stuðningurinn og hvatningin sem skólinn hafi fengið frá samfélaginu. „Þetta er eitthvað sem við viljum ekkert í okkar samfélagi,“ segir hann.

Lögreglu- og sjúkrabíll fyrir utan skólann eftir árásina.
Lögreglu- og sjúkrabíll fyrir utan skólann eftir árásina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Náðist á öryggismyndavélar

Spurður út í starf lögreglunnar í tengslum við árásina segir Ársæll að hún hafi tekið skýrslu af ýmsum úr skólanum. Einnig hafi árásin sést á öryggismyndavélum, sem séu fjölmargar bæði í almenningsrými í skólanum og fyrir utan hann. Skólinn er um tíu þúsund fermetrar að stærð með sex verkstæðum og bóknámshúsi á þremur hæðum. „Skólinn er vel vaktaður. Maður skilur ekkert í því að fólk skuli yfir höfuð láta sér detta í hug að gera eitthvað svona, í beinni útsendingu nánast fyrir framan alla. Það er eitt sem kemur á óvart,“ greinir Ársæll frá.

Varðandi öryggismálin eru tveir inngangar núna opnir í skólanum og þegar nemendur mæta á morgnana hefur starfsfólk tekið á móti þeim, líkt og verið hefur, en betur er passað upp á hlutina núna. „Þetta hefur gengið mjög fínt og það eru allir, bæði nemendur og starfsfólk, meðvitaðir um þetta og ætla að passa skólann sinn.“ Sömuleiðis er passað upp á að sóttvarnir í skólanum séu í lagi vegna kórónuveirunnar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Líklegt að einhverjir snúi ekki aftur 

Sex eru með stöðu sakbornings vegna árásarinnar, þar af einhverjir nemendur skólans. Inntur eftir því hvaða viðurlögum skólinn beitir í málum sem þessum vitnar Ársæll í skólareglur Borgarholtsskóla. Ef beitt er ofbeldi fara nemendur tímabundið úr skólanum á meðan verið er að fara yfir málið.

„Það má búast við því að einhverjir nemendur snúi ekki aftur á þessari önn en það eiga allir rétt á að snúa aftur í nám,“ segir hann en ítrekar að verið sé að vinna í málinu. „Við erum uppeldis- og menntastofnun. Við erum að koma ungu fólki til manns. Við erum ekki refsivöndurinn. Hegningarlögin taka yfir en við skoðum hvert einasta mál og hvern einasta einstakling út frá því hverju hann hefur lent í, bæði varðandi námið og heildarmyndina, og tökum ákvörðun um framhaldið út frá því,“ útskýrir skólameistarinn.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Snýst um að standa aftur upp

Hann segir skólann staðráðinn í að láta atburðinn ekki slá sig út af laginu. „Við höldum ótrauð áfram í okkar góða samfélagi í okkar uppeldis- og menntamálum en erum samt skynsöm. Við skoðum öryggismálin og viljum ekki að óviðkomandi séu hérna inni. Við viljum að nemendur séu öruggir,“ segir hann og vitnar í orð Nelsons Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, sem sagði að tilgangurinn með lífinu sé ekki að komast í gegnum það án þess að hrasa heldur hvernig maður stendur upp eftir að hafa hrasað. „Það er það sem við erum að hjálpa okkar unga fólki með, að standa upp og halda áfram.“

mbl.is