Guðmundur Felix kominn á fætur

Guðmundur Felix Grétarsson undirgekkst flókna aðgerð um miðan janúar, þar …
Guðmundur Felix Grétarsson undirgekkst flókna aðgerð um miðan janúar, þar sem hann fékk ágrædda nýja handleggi.

Guðmundur Felix Grétarsson er kominn á fætur eftir handleggjaágræðslu og tók léttan dans til þess að fagna afrekinu. Guðmundur Felix birtir myndskeið af áfanganum á facebooksíðu sinni.

Guðmundur Felix hefur verið rúmliggjandi síðan hann undirgekkst aðgerðina 14. janúar síðastliðinn, en um var að ræða flóknustu aðgerð sem framkvæmd hefur verið. 

Guðmundur Felix missti báða handleggina í vinnuslysi fyrir rúmum tveimur áratugum. Nú hefur hann fengið handleggi, og þegar mbl.is ræddi við Guðmund Felix síðastliðinn föstudag hafði hann legið í sömu stellingu frá því hann vaknaði eftir aðgerðina.

Nú hefur Guðmundur Felix fengið að standa á fætur í fyrsta sinn eftir aðgerðina, en á myndskeiðinu má sjá hann hæstánægðan með að komast fram úr rúminu með góðri hjálp heilbrigðisstarfsmanna, og með nýju handleggina kirfilega tjóðraða upp við líkamann.

Símtal frá forsetanum

Sylwia Gretarsson Nowakowska, eiginkona Guðmundar Felix, segir í samtali við mbl.is að um mjög stóran áfanga sé að ræða. Þá sé Guðmundur Felix virkilega þakklátur, en hann hefur nú fengið símtöl frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Unni Orradóttur Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi.

mbl.is