Gullhringurinn í nýjum búningi í Árborg

KIA Gullhringurinn hefur undanfarin ár verið í nágrenni Laugarvatns, en …
KIA Gullhringurinn hefur undanfarin ár verið í nágrenni Laugarvatns, en færist nú á tíu ára afmælinu á Árborgarsvæðið. Ljósmynd/MSM

Hjólreiðakeppnin KIA Gullhringurinn fagnar tíu ára afmæli sínu á þessu ári, en við þessi tímamót verður keppnin haldin á nýjum stað eftir að hafa verið fyrstu níu skiptin í nágrenni Laugarvatns. Verður hún framvegis haldin á Selfossi og í Árborg, en Einar Bárðarson, skipuleggjandi keppninnar, sér fyrir sér að hún muni vaxa umtalsvert á nýjum stað auk þess að gera hana að enn meiri fjölskylduhátíð með fjölbreyttari vegalengdum sem verða í boði.

Þá verður skellt í keppni meðal íbúa á svæðinu um besta stuðningsliðið.

Býður upp á keppnin vaxi meira

Í samtali við mbl.is segir Einar að skipuleggjendur KIA Gullhringsins hafi séð að keppnin gat ekki vaxið mikið meira í núverandi umgjörð á Laugarvatni. Þannig hafi næstum öll bílastæði verið yfirtekin meðan keppnin fór fram og þá hafi umferð á vegum í nágrenni Laugarvatns aukist mikið undanfarin ár sem geri keppnishald erfiðara, jafnvel þótt keppnin hafi verið færð yfir á laugardagskvöld. Einar segir að undanfarin ár hafi einnig miklar framkvæmdir átt sér stað á vegunum í nágrenni Laugarvatns og erfitt hafi verið að taka tillit til keppninnar af hálfu framkvæmdaaðila.

Segir hann niðurstöðuna því hafa verið að færa keppnina í Árborg, en stærstur hluti keppninnar er á vegum suður af Selfossi þar sem umferð er minni en í nágrenni Geysis og Gullfoss. „Þetta svæði núna er með miklu minni umferð, engin rörahlið eða tálmanir á vegunum,“ segir Einar og bætir við að mikið sé gert til að tryggja öryggi keppenda. Meðal annars sé búið að fá vilyrði fyrir stutta lokun á þjóðvegi 1 og lögreglufylgd við ræsingu, en keppnin hefst klukkan 20:00 laugardaginn 10. júlí. Lokanirnar séu í raun víðtækari en áður, en taki stuttan tíma.

Vegalengdirnar sem um ræðir eru fjórar; 12 km, 43 km, …
Vegalengdirnar sem um ræðir eru fjórar; 12 km, 43 km, 66 km og 96 km.

Frá 12 km upp í 96 km

Á nýjum stað verða í boði 12 km krakka- og fjölskyldubraut, 43 km hringur fyrir B-flokk, 66 km hringur fyrir A-flokk og 96 km leið fyrir „elite-flokk“. Brautirnar eru allar talsvert flatar með lítið af hækkunum að sögn Einars. Rásmarkið og endamarkið verða á sama stað, fyrir framan Hótel Selfoss og gert er ráð fyrir hátíðarsvæði í kringum nýja miðbæinn sem nú er unnið að því að reisa á svæðinu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi korti er stysta leiðin 12 km hringur í kringum Selfoss, svokallaður Votmúlahringur, en 43 km leiðin liggur Gaulverjabæjarveg niður að strönd og í gegnum Stokkseyri og Eyrarbakka áður en farið er upp Eyrarbakkaveg. Í 66 og 96 km brautunum er í upphafi farið aðeins lengra austur eftir þjóðvegi 1 áður en beygt er suður Villingaholtsveg og niður að strönd. Sama leið er tekin til baka á Selfoss og hjá þeim sem fara 43 km leiðina, en í „elite-flokki“ er tekinn einn auka hringur niður að strönd eftir Gaulverjabæjarvegi.

Rásmark og endamark keppninnar verður fyrir framan Hótel Selfoss. Þjóðvegi …
Rásmark og endamark keppninnar verður fyrir framan Hótel Selfoss. Þjóðvegi 1 verður lokað í stutta stund við ræsingu og keppendum fylgt út fyrir bæjarmörkin í lögreglufylgd. Ljósmynd/Aðsend

Öll leiðin er malbikuð, fyrir utan 6 km kafla í A-flokki og „elite-flokki“. Einar segir hins vegar um samanþjappaðan og þurran veg að ræða sem verði líklegast malbikaður innan tveggja ára. Á meðan verði þetta örlítil auka áskorun fyrir efstu flokkana.

Stefna á 1.200-1.500 keppendur á næstu árum

Einar segir að með breytingunni sé von keppnishaldara að fá yngri og breiðari keppendahóp, en stóra hugmyndin er svo að þróa keppnina áfram þannig að áhorfendur og stuðningslið verði ekki síður hluti af hátíðinni í heild. Þannig segist hann sjá fyrir sér að yngri kynslóð mæti og taki þátt í styttri vegalengdum meðan foreldrar taki mögulega þátt í lengri vegalendum og svo sé sameiginleg skemmtun bæði fyrir og eftir keppni.

Keppnin varð stærst árið 2017 þegar um 800 þátttakendur mættu til leiks. Síðan þá hefur örlítið fækkað, en Einar segir að hann sjái fyrir sér að um 1.200-1.500 keppendur verði innan fárra ára.

Bæði er keppt í afreksflokkum og barna- og fjölskylduflokkum í …
Bæði er keppt í afreksflokkum og barna- og fjölskylduflokkum í Gullhringnum. Ljósmynd/MSM

Hjólað aftur í tímann og keppni stuðningsmanna

Til að allt gangi smurt upp segir hann að keppnishaldarar hafi fengið til liðs við sig sveitarfélagið Árborg, björgunarsveitir á svæðinu og ungmennafélög.

Einar segir að mikið verði lagt upp úr því að gera daginn ánægjulegan bæði fyrir keppendur og íbúa svæðisins. Í einhverjum flokkum verði þannig boðið upp á að hjóla meðfram byggðarsafni Árnesinga á Eyrarbakka, en þar er götumynd frá þarsíðustu aldamótum og verður hjólurum boðið að „hjóla aftur í tímann“ og upplifa stemningu fyrri tíma.

Þá verður keppni fyrir íbúa um „besta brúsapallapartýið“, en hugmyndin þar er að lögbýli skrái sig til leiks og fái stuðningsmannapakka frá Byko til að skreyta sína stöð eins vel og hægt er. Sérstök dómnefnd mun svo keyra á eftir keppendum og dæma besta stuðningsliðið út frá gestrisni Árnesinga, fagurfræðilegum útfærslum og hávaða. Í verðlaun verða 50 til 150 þúsund króna verðlaun frá Byko að sögn Einars, en hann segist vona að með þessu takist að byggja upp vísi að stemningu sem sjá megi við stærri hjólaviðburði erlendis.

Bæjarstjórinn sér fyrir sér heila hjólahelgi á komandi árum

Í tilkynningu frá mótshöldurum er haft eftir Gísla H. Halldórssyni, bæjarstjóra Árborgar, að ánægja sé með tilhögunina. „Árborg hefur á síðustu árum unnið markvist að því að bæta aðstöðu hjólreiðafólks í sveitarfélaginu. Ekki bara innan kjarnanna heldur tengjum við þá saman núna með hjólreiðastíg og við viljum veg hjólreiðanna sem mestan.“ Segir hann jafnframt að unnið verði að því að láta keppnina vaxa sem mest og að hann sjái í framtíðinni fyrir sér hjólahelgi í kringum keppnisdaginn og að gestir verði taldir í þúsundum en ekki í hundruðum.

Þegar nýi miðbærinn hefur tekið á sig mynd er gert …
Þegar nýi miðbærinn hefur tekið á sig mynd er gert ráð fyrir að hátíðarsvæði verði á nýju torgi þar.
mbl.is