Húsið sem brann skipti nýlega um eigendur

Eldur kviknaði í einbýlishúsi við Kaldasel á sjöunda tímanum í …
Eldur kviknaði í einbýlishúsi við Kaldasel á sjöunda tímanum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Tækni- og rannsóknardeild var að vinna í dag á vettvangi og rannsókn er lokið þar. Við tekur að vinna úr gögnum sem aflað var í dag,“ segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni á Dalvegi, um eldsvoða í Kaldaseli. Húsið hafði nýlega komist í hendur nýrra eigenda.

Allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var kallað út á sjöunda tímanum í morgun til að bregðast við eldi í einbýlishúsi í Kaldaseli í Breiðholti. Óttast var um að altjón væri að ræða.

Einn maður á vettvangi 

Gunnar segir einn mann hafa verið á vettvangi en ekki vitað hversu margir hafi búið í húsinu. Enginn er skráður til heimilis í húsinu í símaskrá en húsið var keypt nýlega. 

Maðurinn hafði komið sér út úr húsi þegar slökkvilið bar að garði. 

Tryggingarfélag húseigenda hefur lokað brunarústunum og húsið er talsvert skemmt. Gunnar vill ekki segja til um hvort það sé gjörónýtt. 

Mikinn reyk lagði yfir hverfið að sögn Gunnars en eldurinn var bundinn við þetta eina hús og ekki hætta á að hann myndi breiðast út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert